Litli risinn ósigrandi
Gunnar Ellert Geirsson, oft nefndur Litli risinn, sigraði aftur á Nettó mótinu í skvassi sem haldið var þann 30. desember í Íþróttahúsinu á Ásbrú. Mótið fór vel fram í alla staði og skemmtu menn sér vel. Töluvert var um afföll á mótinu enda annir á mörgum bæjum í árslok.
Gunnar Ellert sigraði alla leiki sína á mótinu og virðist búa yfir aukagír þegar í harðbakkann slær, og að honnum er sótt. Sigurður Garðarsson sýndi mikla keppnishörku og náði öðru sætinu þrátt fyrir að hafa varla snert spaða í tvö ár. Siggi virðist eldast alveg ótrúlega vel á Nesvöllum, auk þess að vera upptekinn við að reka golfklúbbinn GS ásamt fleiri góðum mönnum, með fínum hagnaði, eitthvað sem flest íþróttafélög þekkja því miður fæst og enn færri hafa áorkað síðan „gróðærið“ heltók menn fyrir nokkrum árum. Þegar smjör draup af hverju strái í sumum görðum.
Keilis greifinn Birgir Már Bragason sá svo um að verja heiður Ásbrúarverja með traustri spilamennsku. Fjórir nýliðar mættu til leiks og stóðu sig vel. Þeirra fremstur fór Jón Jóhannsson. Ljóst er að menn þurfa að brýna ljáinn betur til að vinna á Gunnari, sem eins og nafni hans frá Hlíðarenda virðist ósigrandi.
Tómas Tómasson sem hefur umsjón íþróttunum á Ásbrú segist vona að allir hafi haft gaman af og óskar um leið öllum gleðilegs árs og vonara að fleiri skemmtileg mót séu í vændum á þessu ári. Hann vildi að lokum þakka Nettó mönnum fyrir glæsileg verðlaun og fyrir stuðning við íþróttir hér í Reykjanesbæ.
Texti/Mynd: Tómas Tómasson