Lítil aðsókn á leiki Grindavíkur og Keflavíkur
Aðsókn á leiki Grindavíkur og Keflavíkur í Landsbankadeild karla í knattspyrnu er nokkuð minni en á leiki flestra annarra liða í deildinni.
Um 830 mæta að meðaltali á hvern heimaleik hjá Keflavík en 774 hjá Grindavík. Einungis KA og ÍBV eru með verri mætingu á leiki, en flestir sækja leiki í Frostaskjóli, 1591 að meðaltali, og Kaplakrika, 1574.
Ekki má þó túlka ástandið þannig að stuðningsmenn liðanna séu latir að sækja völlinn, en stuðningsmenn gestaliðanna mikla oft fyrir sér að halda suður með sjó til að fylgjast með fótboltaleik.
Alls hefur heildaráhorfendafjöldi í Landsbankadeildinni í sumar verið með betra móti þar sem meðaltal er 1017 á hvern leik, eilítið minna en í fyrra þegar 1025 komu á leiki.