Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Lilja Íris: Allt getur gerst í bikarleik
Þriðjudagur 21. ágúst 2007 kl. 21:13

Lilja Íris: Allt getur gerst í bikarleik

Keflavík mun mæta KR í úrslitaleik VISA bikarkeppni kvenna í knattspyrnu eftir frækinn 3-1 sigur á Fjölni á Keflavíkurvelli í kvöld. Danka Podovac gerði tvö mörk fyrir Keflavík í leiknum og Vesna Smiljkovic gerði eitt. Bikarúrslitaleikurinn fer fram á Laugardalsvelli þann 22. september næstkomandi og mætir Keflavík toppliði KR sem lagði Breiðablik 3-7 í Kópavogi í kvöld. Þetta er aðeins í annað sinn sem kvennalið frá Keflavík kemst í bikarúrslitaleikinn en það gerði ÍBK árið 1992 þegar liðið lá 6-0 gegn ÍA.

Strax á 8. mínútu leiksins dró til tíðinda þegar Keflavík fékk hornspyrnu. Vesna Smiljkovic tók spyrnuna úr vinstra horninu, boltinn barst inn í teig og virtist blaðamanni sem hann lenti rétt innan við línuna án þess að annar leikmaður kæmi við hann. Markið er því hér ritað á Vesnu og að hún hafi skorað úr hornspyrnu, ekki á hverjum degi sem það gerist. Staðan því orðin 1-0 fyrir Keflavík sem var sterkari aðilinn í upphafi leiks.

Skömmu eftir markið fóru gestirnir að ranka við sér og áttu fínar rispur inn á milli en Keflvíkingar voru meira með boltann og sköpuðu sér hættulegri færi. Enn á ný dró til tíðinda úr vinstra horninu. Danka Podovac tók þá stutta hornspyrnu með jörðinni, boltinn fór á Vesnu sem skilaði honum aftur út til Dönku. Danka lék þá á þrjá varnarmenn Fjölnis áður en hún lét boltann vaða á markið. Boltinn fór beint í hægri stöngina og inn, óverjandi fyrir markvörð Fjölniskvenna. Eitt af glæsilegri mörkunum í kvennaboltanum í sumar. Staðan orðin 2-0 Keflavík í vil og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Aðeins voru um 5 mínútur liðnar af síðari hálfleik þegar Keflavíkurkonur komust í 3-0 með öðru marki frá Dönku. Hún skoraði nú úr aukaspyrnu, spyrnan var fremur lág en einhverra hluta vegna rataði hún í gegnum þvöguna í teignum og í netið. Staðan 3-0 en Fjölniskonur voru ekki lengi að svara.

Aðeins um 10 sekúndum eftir þriðja mark Keflavíkur minnkuðu Fjölniskonur muninn í 3-1 þegar Rúna Sif Stefánsdóttir náði frákastinu úr höndum Dúfu í Keflavíkurmarkinu og skoraði Rúna af nokkru öryggi.

Það sem eftir lifði leiks áttu bæði lið fínar sóknarrispur en Keflvíkingar hleyptu Fjölni aldrei of nærri þó oft hafi hurð skollið nærri hælum. Keflavíkurkonur eru því komnar í bikarúrslitaleikinn og mæta KR þann 22. september á Laugardalsvelli.

Fyrirliðinn Lilja Íris Gunnarsdóttir hefur beðið þessarar stundar um langa hríð enda var hún kampakát í leikslok. „Ég er búin að bíða lengi eftir þessu því ég hef aldrei áður spilað bikarúrslitaleik,“ sagði Lilja. Aðspurð hvort KR væri ekki sigurstranglegri aðilinn í bikarúrslitaleiknum þann 22. september svaraði Lilja: „Allt getur gerst í bikarleik.“

VF-myndir/ [email protected]

 

 

 

 

 


 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024