Lilja gerði út um KR
Lilja Íris Gunnarsdóttir reyndist hetja Keflavíkur þegar liðið lagði KR að velli í kvöld, 2-1. Lilja gerði bæði mörk Keflavíkur í leiknum en Hrefna Jóhannesdóttir gerði mark KR eftir vítaspyrnu. Keflavík er sem fyrr í 5. sæti Landsbankadeildarinnar en KR er í því þriðja.
Úrhellisdemba var á Keflavíkurvelli í kvöld og erfiðar aðstæður til knattspyrnuiðkunar. Keflavíkurstúlkur mættu grimmar til leiks og tóku snemma völdin á vellinum. Fyrsta marktækifærið átti Nína Ósk þegar hún skaut að marki KR á 5. mínútu en María Ágústsdóttir varð vel í markinu.
Keflavík hélt boltanum betur en KR og náði að byggja upp ágætis spil miðað við aðstæður. Á 18. mínútu dró til tíðinda, Keflavík tók hornspyrnu sem KR hreinsaði frá en boltinn barst á nýjan leik inn í teig KR og þar var mikill hamagangur. Að endingu barst boltinn til Lilju Írisar sem þrumaði honum í netið og heimastúlkur komnar yfir. Keflavík 1-0 KR.
Hættulegasta færi KR í fyrri hálfleik kom á 24. mínútu þegar Hrefna Jóhannesdóttir átti skot að marki Keflavíkur en Þóra varði vel í markinu. Fyrri hálfleik lauk því í stöðunni 1-0 fyrir Keflavík sem var mun sterkari aðilinn.
Það voru svo gestirnir sem komu sem grenjandi ljón í seinni hálfleikinn og réðu lögum og lofum fyrstu 10 mínúturnar. Á 56. mínútu gerði Lilja Íris sitt annað mark í leiknum fyrir Keflavík, þvert gegn gangi leiksins. Átti Keflavík aukaspyrnu hægra megin við vítateig og var sendur fastur bolti inn í miðjan teiginn þar sem Lilja kom æðandi að og sendi knöttinn í mark. Keflavík 2-0 KR.
KR-stúlkur voru ekki af baki dottnar og á 71. mínútu var dæmd vafasöm vítaspyrna á Keflavík. Brotið var á sóknarmanni KR og átti brotið sér klárlega stað fyrir utan vítateig, dómari leiksins, Ásgrímur Helgi Einarsson, lét leikinn halda áfram en dæmdi vítaspyrnuna þegar aðstoðardómarinn hafði veifað flaggi sínu. Hrefna Jóhannesdóttir tók spyrnuna og skoraði af miklu öryggi. Keflavík 2-1 KR.
Það sem eftir lifði leiks sóttu KR-ingar hart að marki Keflavíkur en vörn Keflavíkur stóðst áhlaupið og 2-1 sigur í höfn. Mikill stígandi hefur verið í Keflavíkurliðinu að undanförnu og hafa þær náð að baka stórliðunum nokkur vandræði, þó þykir ljóst að þær komist vart ofar í deildinni því þær eiga einungis 2 leiki eftir og næsta lið fyrir ofan þær er 6 stigum á undan.
„Þetta var rosalega sætt og við áttum þennan sigur fyllilega skilið. Við áttum t.d. að vinna ÍBV á dögunum en það var rosalega sætt að taka KR hérna á heimavelli. Vörnin skipti mestu máli í kvöld en við bökkuðum kannski full mikið og taugarnar voru þandar hér undir lokin,“ sagði Lilja Íris Gunnarsdóttir, markaskorari Keflavíkur í kvöld, í samtali við Víkurfréttir.
Staðan í deildinni
VF-myndir/ Jón Björn, [email protected]