Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Líkt við Ole Gunnar Solskjær
Fimmtudagur 15. mars 2012 kl. 11:29

Líkt við Ole Gunnar Solskjær

Elías Már Ómarsson er knattspyrnumaður úr Keflavík en hann er 17 ára gamall og leikur nú með 2. flokki hjá Keflavík. Elías er framherji, en getur spilað báða kantana og leikið fremstur á miðju vallarins. Elías er einn af fjölmörgum efnilegum ungum leikmönnum hjá Keflavík en á dögunum hélt hann til æfinga hjá Íslendingaliðinu Reading sem leikur í ensku 1. deildinni.

„Þetta kom þannig til að ég er með umboðsmann og hann er í einhverjum samskiptum reglulega við Reading og hann kom þessu í kring. Ég dvaldi þarna í 9 daga ásamt Kristjáni Flóka Finnbogasyni úr FH og mér leist mjög vel á klúbbinn og allir strákarnir þarna hjálpuðu manni og voru heiðarlegir og skemmtilegir,“ segir Elías sem fór á æfingar með unglingaliðinu og spilaði leik með þeim þar sem honum tókst m.a. að leggja upp mark. Hann fór einnig á æfingar með varaliðinu og svo eina æfingu þar sem varaliðið og aðalliðið æfðu saman. „Ég náði alveg að skora á æfingunum og þetta gekk bara mjög vel verð ég að segja.“

Áður hafði Elías fengið nasaþefinn af stóru klúbbunum í Englandi en hann æfði um stund með Bolton þegar hann var 14 ára gamall en hann vakti þá athygli þjálfara í Bobby Charlton knattspyrnuskólanum.

Hvernig gekk hjá Reading? „Þetta gekk bara mjög vel. Þeir sögðu m.a. við Ólaf umboðsmann minn að ég hefði staðið mig mjög vel og væri með getuna knattspyrnulega séð. Þjálfarinn líkti mér m.a. við Ole Gunnar Solskjær,“ segir Elías en það verður að teljast ágætis hrós enda Solskjær fyrir löngu orðinn goðsögn hjá stórliði Manchester United. Elías er sammála því að það sé mikið hrós þótt hann sé sjálfur stuðningsmaður Liverpool.

Elías er þessa stundina að undirbúa sig undir leiki með undir 17 ára landsliði Íslands en liðið leikur í milliriðli Evrópukeppninnar sem fram fer í Skotlandi dagana 20.-25. mars. Sigurvegari riðilsins tryggir sér sæti í úrslitakeppninni sem leikin verður í Slóveníu og hefst 4. maí. Elías hefur reynslu af því að leika með yngri landsliðum Íslands en hann lék einmitt með íslenska U-17 ára liðinu sem varð Norðurlandameistari síðasta sumar og liðið náði einnig að vinna sér sæti í milliriðlum með því að vinna undanriðilinn sem leikinn var í Ísrael síðastliðið haust. Liðið er því greinilega feikilega öflugt.

„Þeir hjá Reading tjáðu okkur að þeir ætluðu að fylgjast með okkur í Skotlandi og eftir það verður bara að koma í ljós hvort ég fari aftur til Reading eða ekki,“ segir Elías. Hann hefur verið að æfa aðeins með meistaraflokki Keflavíkur á undirbúningstímabilinu og það er því aldrei að vita hvort þessi efnilegi sóknarmaður fái tækifæri hjá Zoran Ljubicic í sumar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024