Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Líklegt að Kristján hætti með Keflavík – Willum Þór í myndinni?
Fimmtudagur 24. september 2009 kl. 12:55

Líklegt að Kristján hætti með Keflavík – Willum Þór í myndinni?

„Ég get ekki neitað því að við höfum heyrt þessar raddir en það var ákveðið að klára tímabilið og síðan myndu aðilar setja niður og ræða málin,“ segir Þorsteinn Magnússon, formaður Knattspyrnudeildar Keflavíkur um háværar raddir meðal stuðningsmanna Keflavíkur um að segja upp samningi við Kristján Guðmundsson þjálfara Pepsi deildarliðs Keflavíkur í knattspyrnu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Miklar væringar eru meðal stuðningsmanna Keflavíkurliðsins eftir slakt gengi í sumar og samkvæmt óvísindalegri könnun vf.is í herbúðum forráðamanna Keflavíkur sem og stuðningsmanna þá virðist nokkuð ljóst að Kristján mun ekki halda áfram með liðið. Hann hefur ekki stuðning meðal áhagenda liðsins og nær engar líkur á því að hann haldi áfram með liðið þó svo formaðurinn segi að það verði sest niður eftir síðasta leikinn. Kristján gaf það út við Bylgjuna í hádegisfréttum að hann myndi greina frá því á morgun hvort það kæmi til greina að hann myndi halda áfram með Keflavík. Formaður Keflavíkur segist hafa heyrt það í fréttunum en hafði ekki heyrt það frá Kristjáni. Miðað við það er ekki líklegt að aðilar þurfi að setjast niður eftir leikinn á laugardag við ÍBV.

Endurskoðunarákvæði er í samningi Kristjáns við Keflavík nú í október og samkvæmt heimildum Víkurfrétta er fátt sem kemur í veg fyrir það að Keflvíkingar nýti sér það og óski ekki eftir frekari starfskröftum Kristjáns. Undir hans stjórn varð liðið bikarmeistari og 2006 og varð í 2. sæti á Íslandsmótinu í fyrra. Þrátt fyrir mjög góðan leikmannahóp í sumar var gengi liðsins slakt og það vann engan útileik og tapaði í undanúrslitum gegn Blikum. Það tap var sárt og dýrt og kostaði félagið tugi milljóna og ekki er ólíklegt að þar hafi dropinn fyllt mælinn hjá flestum Keflvíkingum – og eftir þann leik hafi verið ljóst að framtíð Kristjáns hjá Keflavík var lokið.

Meðal stuðningsmanna Keflavíkur hefur nafn Willum Þórs Þórssonar meðal annars komið upp en hann hefur á sínum ferli náð mjög frábærum árangri með Þrótt, KR og Val þar sem hann hætti þjálfun í sumar. Hjá öllum liðunum skilaði hann titlum.