Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Líkast til of stór ósigur
Sunnudagur 2. júlí 2006 kl. 01:29

Líkast til of stór ósigur

Stefán Örn Arnarson gerði sitt fyrsta Evrópumark fyrir Keflavík gegn Lilleström í dag þegar Keflavík varð að lúta í gras 4-1 fyrir heimamönnum í Inter-Toto keppninni í knattspyrnu.

 

Lilleström, sem er í 2. sæti norsku úrvalsdeildarinnar, opnaði markareikning sinn á 26. mínútu leiksins þegar Björn Helge Riise skoraði með skalla eftir fyrirgjöf. Fram að markinu höfðu Lilleström sótt nokkuð stíft að marki Keflavíkur en vörn gestanna hafði haldið vel fram að því.

 

Keflvíkingar vissu það fyrir leikinn að Lilleström yrðu sérlega hættulegir í föstum leikatriðum en á 35. mínútu var Kasey Wehrman á ferðinni og kom Lilleström í 2-0 eftir glæsilega aukaspyrnu. Ómar átti engan möguleika á því að verja boltann sem hafnaði í bláhorninu.

 

Skömmu síðar eftir annað mark heimamanna fengu Keflvíkingar fína sókn og boltinn barst til Stefáns Arnar í teignum og Stefán afgreiddi knöttinn í netið eins og honum einum er lagið og gengu liðin til hálfleiks í stöðunni 2-1 Lilleström í vil en þetta var fyrsta Evrópumark Stefáns.

 

Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, áréttaði í leikhléi að mark á útivelli væri gulls ígildi en leikmenn hans fengu þungan skell strax í upphafi seinni hálfleiks.

 

Á 51. mínútu lét Kasey Wherman aftur að sér kveða þegar hann breytti stöðunni í 3-1 eftir hornspyrnu hjá heimamönnum en eftir það mark var nokkuð jafnræði með liðunum. Skömmu eftir markið fóru Guðmundur Steinarsson og Stefán markaskorari Arnarson af leikvelli og inn komu Þórarinn Kristjánsson og Magnús Þorsteinsson.

 

Skiptingarnar virkuðu þó ekki sem sú vítamínssprauta sem til var ætlast og lokaorðið höfðu heimamenn þegar Magnus Mykelbust kom Lilleström í 4-1 á 93. mínútu og ekki var laust við vonbrigðin í herbúðum Keflvíkinga.

 

Keflvíkingar reyndu hvað þeir gátu gegn einu fremsta liði norðurlandanna en fengu oft að sætta sig við minni hlutann og var úkraínski dómarinn þeim lítið innan handar. Heimamenn fengu mikið að fara upp í skallaeinvígi með olnbogana á lofti og aldrei voru þeir dæmdir brotlegir fyrir þessa vasklegu framgöngu. 

 

Næsti leikur er gegn Leiknismönnum og að þeim leik loknum koma Lilleström í heimsókn til Keflavíkur. Þá má fastlega gera ráð fyrir því að ein helsta stjarna Lilleström, Frode Kippe, verði með liðinu en hann hefur verið að stríða við meiðsli að undanförnu. Kippe hefur t.d. verið á mála hjá Liverpool.

 

Til þess að komast áfram í næstu umferð gegn Newcastle, verða Keflvíkingar að vinna næsta leik 3-0 gegn Lilleström í Keflavík.

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024