Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Líkar vel við töluna einn
Sunnudagur 30. október 2011 kl. 12:58

Líkar vel við töluna einn

- Íþróttakennarinn og afrekskonan Kristjana H. Gunnarsdóttir


Kristjana H. Gunnarsdóttir starfar sem íþróttakennari í Fjölbrautaskóla Suðurnesja en auk þess er hún þjálfari í líkamsræktarstöðinni Lífsstíl í Reykjanesbæ. Kristjana, eða Kiddý eins og hún er jafnan kölluð er ein af hraustari konum Suðurnesja, ef ekki sú allra hraustasta ef marka má keppni í Þrekmótaröð EAS sem haldin var um þarsíðustu helgi þar sem Kiddý hampaði sigri í þremur flokkum: Í flokki einstaklinga 39 ára og eldri, hópakeppni 39 ára og eldri og í parakeppni 39 ára og eldri, en Kiddý er sjálf 40 ára gömul. Hún hlaut síðan titilinn „Hraustasta 39+ kona landsins árið 2011,” en það er samanlagður árangur úr fjórum keppnum yfir árið (Lífsstílsmeistarinn, Cross-fit keppni, BootCamp keppni og 5X5). Þetta er reyndar ekkert nýtt fyrir Kiddý sem hefur verið að ná góðum árangri í slíkum keppnum um árabil.


Á árum áður var Kiddý markmaður í handbolta, hún hóf ferilinn hjá Reyni Sandgerði. „Ætli ég hafi ekki verið 13 ára þegar handboltinn hætti svo hjá Reyni, þá fór maður í Keflavík.“ Kiddý lærði íþróttakennarann á Laugarvatni þar sem hún útskrifast 1993, og æfði þá handbolta með Selfyssingum. Þegar námi var lokið var búið að leggja niður handboltann í Keflavík og voru því handboltaskórnir lagðir á hilluna. Eftir að handboltinn hætti fór hún að hlaupa og lyfta sjálf, auk þess sem hún fór að kenna eróbikk. „Ég byrja eftir handboltann að taka þátt í almenningshlaupum og gekk vel á þeim vettvangi. Árið 2001 fer ég að fylgjast með þrekmeistarakeppninni og tek þar fyrst þátt í liðakeppni. Eftir að hafa farið nokkrum sinnum í liðakeppnina þá fannst mér kominn tími á að prufa að taka þátt í einstaklingskeppninni og þá í raun byrjar þetta að rúlla.”


Kiddý hefur verið ósigrandi í einstaklingskeppni Þrekmeistarans síðan árið 2005 og hafa liðin hennar 5 fræknar og Dirty nine hampað 1. sætinu margsinnis. Einnig hefur hún sigrað nokkrum sinnum í parakeppni með Vikari Sigurjónssyni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Bullandi brjálæði árið um kring


„Núna eftir að þrekmótaröðin hóf göngu sína þá er þetta í gangi allan ársins hring en áður voru góðar pásur inn á milli, enda er Þrekmeistarinn bara tvisvar á ári. Þann 5. nóv. er ég t.d. að fara að taka þátt í mínu sjötta móti á árinu. Þannig að maður er núna allt árið í bullandi brjálæði, svona hefur það verið alla vega undanfarin tvö ár. Ef maður ætlar sér að vera framarlega í þessu þá verður maður að æfa vel og leggja mikið á sig, þannig er það bara,“ segir Kiddý.


Hefurðu ennþá jafn gaman af þessu?

„Já það hef ég. Ef maður er að ná árangri í þessu þá vill maður halda áfram.Það eru margar ungar stelpur sem ég er farin að sjá, sem eiga eftir að gera góða hluti í framtíðinni, ef þær halda rétt á spilunum. Þær eru farnar að banka hressilega á dyrnar. Ég vona að ég virki sem hvatning fyrir fleiri að drífa sig af stað.

Ég get miðlað af minni reynslu, en það er nokkuð ljóst að það er hægt að gera ýmislegt þótt að þú getir það ekki endilega í dag. Æfingin skapar meistarann!“


En varst þú alltaf góður íþróttamaður?


„Ég var t.d. ekki góður hlaupari. Þær sem eru að æfa með mér í dag og voru með mér í handboltanum á sínum tíma, hlæja mikið að því hvað ég var léleg í hlaupunum í gamla daga en þá var mér alveg sama. Þar sem ég var markmaður þá fannst mér tilgangslaust að vera að hlaupa endalaust. Nú hefur orðið viðsnúningur og ég sting þær allar af þessar stelpur,“ segir Kiddý létt í bragði en bætir því við að það sé þó ekki í spretthlaupunum enda er hún að eigin sögn ekkert svo hröð. „Margir segja að ég sé eins og gömul dísilvél sem er lengi í gang, þegar ég fer svo loks í gang þá get ég dugað ansi lengi.“


Hvað æfirðu mikið í viku?


„Ég er að æfa nánast daglega og er alls ekki barnanna best í því að taka heila frídaga. Ég tek þó miserfiða daga, fyrir mig telst það sem frí að fara út að skokka 12 - 15 kílómetra. Annars er ég að æfa tvo tíma á dag og með kennslunni í Lífsstíl þá getur það farið í þrjá tíma. 2 x í viku æfi ég svo með frábærum hópi undir leiðsögn Ásdísar Þorgilsdóttur. Það getur fylgt því pirringur þegar ég kemst ekki í ræktina af einhverri ástæðu. Þegar ég fer t.d. í sumarfrí þá finnst mér alveg frábært að fara og hlaupa á þeim stað sem ég er á og kynnast umhverfinu um leið. Það er engin afsökun að sleppa ræktinni þó að þú farir í frí, mér finnst fólk allt of oft nota þá afsökun.“


Ertu mikil keppnismanneskja?


„Ég hef alltaf haldið að ég væri það ekki, þótt að aðrir hafi haldið því fram, en jú ætli það verði ekki að viðurkennast að ég sé mikil keppnismanneskja. Mér líkar afskaplega vel við töluna einn.“


Manískt en heilbrigt


Geturðu tekið undir það að fólk sem er á fullu í ræktinni verði í rauninni hálf manískt?


„Alveg pottþétt. Þetta verður ekki lengur spurning um það hvort að maður sé að fara á æfingu, heldur er það bara, „ég er að fara á æfingu“. Ég vakna klukkan 5 á morgnana og er byrjuð að æfa um korter yfir. Það er aldrei spurning um að sleppa því, þetta verður bara sjálfvirkt, bara eins og að bursta tennurnar. Að því leytinu getur maður sagt að þetta sé manískt. Hjá mér persónulega þá er ég ekki þannig þegar að það kemur að mataræðinu, allt er best í hófi þar. Mér þykir súkkulaði mjög gott og ég drekk alveg gos annað slagið. Það er líka alveg hægt að fá sér ís þó auðvitað þurfi að stilla því í hóf eins og hverju öðru. Það skiptir mestu máli hvaða matvæli þú velur dags daglega. Hollt mataræði kemur þér lengra. Þrekkeppnir snúast ekki um útlitið eins og fitnesskeppnirnar, heldur um hvað þú getur þol-, styrktar- og liðleikalega séð, sem mér finnst mjög jákvætt og heilbrigt.”


Það sem heillar Kiddý hvað mest við þessar þrekkeppnir er hvað þetta er góður framhaldsgrundvöllur fyrir íþróttafólk sem er jafnvel hætt í sínu sporti, en er ennþá með keppnisgenin í sér og vilja áfram æfa á eigin vegum. „Þá er þetta frábær leið til að halda sér í formi og svo er hægt að vera hluti af liði ef þú saknar liðsandans.“


En hvernig sérðu framhaldið fyrir þér, verður þú að keppa fram á gamals aldur?


„Ég er unglambið í Dirty-nine liðinu okkar, en þær eru allar nálægt fimmtugu og í frábæru formi. Þuríður Þorkels er t.d. nautsterk og rúllar mér upp í þyngdunum og svo er Ásta Katrín svakalega snögg, þannig að þegar ég horfi á þær keppa þá hugsa ég um hvað ég eigi mörg ár eftir,“ segir hún og brosir. “Ég tek oftast bara eina keppni fyrir í einu. Ég plana yfirleitt ekki langt fram í tímann heldur tek ég púlsinn á því hvernig mér líður eftir hverja keppni og hvað mig langar til að gera. Nú ætla ég að taka þátt í næsta Þrekmeistara og svo er hlé þangað til að Lífsstílsmeistarinn fer fram snemma á næsta ári. Ég ætla bara að sjá til en þegar maður er í þessu umhverfi og er að æfa með þessu keppnisfólki þá er stemningin þannig að maður veit varla af, fyrr en maður er búin að plana næstu keppni.“


Þrekkeppnirnar hafa breyst mikið frá því að hún byrjaði að keppa í þeim, þá var þetta meira fólk um tvítugt og nokkrir kannski yfir þrítugu. „Nú eru þetta alveg hörku kellingar í 39+ flokknum og alls ekkert gefið að ná sigri.“


Finnst þér hafa verið mikil aukning í þessu sporti síðan þú byrjaðir?


„Já það er mikil aukning í gangi og í undanförnum mótum hafa verið vel yfir 300 keppendur. Ég held að þetta fari frekar vaxandi heldur en hitt. Það þarf að fara að huga að því að setja af stað flokk 49 ára og eldri eins og í hlaupunum”.


Hvernig finnst þér fólk vera almennt meðvitað um heilsuna?


„Eftir að fólk fór að vinna minna í kjölfar hrunsins þá fór það frekar að huga að heilsunni að mínu mati, fleiri sjást úti að skokka og eins held ég að fólk sé að elda meira heima hjá sér heldur en það gerði áður. Margir vita heilmikið um hvað þarf að gera til að ná góðri heilsu, en ná þó ekki að koma sér af stað. En gott er að hafa í huga, að það er aldrei of seint. Umræðan um mikilvægi góðrar heilsu er líka sífellt meiri og það er líka orðið meira í boði, sem vonandi nær til breiðari hóps, en mjög mikilvægt er að finna hreyfingu við hæfi hvers og eins.”


Það er mikið skipulag á heimilinu hjá Kiddý þegar kemur að æfingum en hún er gift Bergþóri Magnússyni íþróttakennara og eiga þau dótturina Sunnu Líf sem er 10 ára.


„Maðurinn minn er líka svona aktífur,“ segir Kiddý og hlær. „Hann er reyndar ekki að keppa en hann hjólar á hverjum morgni og þess vegna þarf heimilishaldið að vera vel skipulagt. Það er þannig að hann vaknar klukkan hálf fimm og fer út að hjóla í hvaða veðri sem er. Á meðan er ég í skúrnum í „ræktinni“ okkar að hita upp. Þegar hann kemur heim þá fer ég niður í Lífsstíl og tek æfingu þar, hann klárar svo sína æfingu heima og kemur stelpunni af stað fyrir daginn. Þetta er því alveg þaulskipulagt.“ Kiddý segir þetta virka vel og að báðir aðilar séu mjög sáttir og geðgóðir með að ná æfingum dagsins svona snemma.


Dóttir hennar sér ekkert athugavert við það að foreldrar hennar séu vaknaðir fyrir allar aldir og fari í ræktina. „Henni finnst þetta bara eðlilegt og hún heldur sjálfsagt að allir foreldrar geri þetta, hún þekkir ekkert annað.“


Hvað það er sem þarf til að ná árangri?

„Gott skipulag, niðurskrifað markmið, staðfestu, góða æfingafélaga, góðan þjálfara og stuðning frá fjölskyldu og vinum. Það sem skiptir þó allra mestu máli er jákvætt hugarfar en það er eitthvað sem ég hef lært á seinni árum að skiptir ótrúlega miklu máli. Að hafa trú á því að maður geti gert hlutina tel ég að skipti miklu máli og hjá mér persónulega hefur það breytt miklu. Oft er það munurinn á þeim bestu og þeim sem eru góðir,“ sagði hin hrausta og jákvæða Kiddý að lokum.


Viðtal: Eyþór Sæmundsson