Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Lífsstíll sem gefur okkur mikið
Snorri Ólason og Rosti frá Melabergi.
Laugardagur 19. janúar 2019 kl. 08:00

Lífsstíll sem gefur okkur mikið

Snorri Ólason og fjölskylda eru á kafi í hestamennsku

Íslenski hesturinn er hestakyn sem er skylt norska lynghestinum og er af mongólskum uppruna. Talið er að víkingar hafi flutt með sér þessa hesta þegar þeir settust að á Íslandi fyrir meira en 1.000 árum síðan. Hesturinn er óvenju sterkbyggður, heilsuhraustur, þrautseigur og veðurþolinn. Hann státar af jafnaðargeði og vingjarnlegu eðlisfari og fyrir það hefur hann aflað sér mikillar aðdáunar. Einnig er hann sterkari á taugum heldur en mörg stærri hestakyn. Íslenski hesturinn er þekktur fyrir sínar fimm ólíku gangtegundir; fet, brokk, stökk, tölt og skeið.

Í hestamennsku frá barnæsku

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á bæjarmörkum Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar er Mánagrund, heilt hestaþorp þar sem félagsmenn Mána hafa byggt upp mjög flott útivistarsvæði undanfarin rúm fjörutíu ár. Í dag eru félagsmenn Mána eitthvað rúmlega 350 talsins og hafa verið samtaka í að byggja upp svæðið saman. Félagsmenn eiga reiðhöll sem þeir vígðu árið 2009 með fundaraðstöðu en þeir seldu hluta sinn í félagsheimilinu á Mánagrund til Bridgefélags Suðurnesja. Þeir leigja af þeim salinn til að halda árshátíðir og þess háttar. Það er hópreið nokkrum sinnum á ári hjá félagsmönnum þegar þeir fara saman m.a. í þorrareið í janúar og kvennareið í maímánuði. Hestamennska liggur nánast niðri á haustin þegar hestarnir eru í fríi frá eigendum sínum og fara í hagann fram að jólum.

Við rákumst á Snorra Ólason einn fagran vetrardag í hestaþorpinu á Mánagrund þegar hann var að beisla hest en Snorri hefur verið viðloðandi hesta frá barnæsku.

„Ég hef verið í hestamennsku síðan ég var krakki. Ég byrjaði með föðurbróður mínum Gunnari Árnasyni og afa Sigurði Sturlusyni, sem var verslunarstjóri í Járn og skip á sínum tíma. Ég var líka með hesta öll sumur í sveit hjá ömmu og afa þegar ég var lítill í Skógum í Öxarfirði. Bærinn eyðilagðist í jarðskjálfta árið 1976 en þá seig landið svo mikið að þau fluttu burt. Hérna voru hesthúsin fyrst uppi í Turner sem var svæði fyrir ofan Reykjanesbraut. Svo byggðu þeir upp Mánagrund en voru í raun löngu byrjaðir að rækta landið þar og fengu landgræðsluverðlaun árið 1996. Það er búið að vera að byggja upp þetta útivistarsvæði í fjörutíu ár eða lengur. Hestamannafélagið Máni var formlega stofnað árið 1965. Áður voru hestakarlar úti um allan bæ með hesthús eða kofa en hestar voru þá einnig stundum á þvælingi á götum Keflavíkur,“ segir Snorri og blaðamaður minnist þess að hafa rekist á hestastóð eldsnemma einn morgun sem krakki á leið til ömmu sinnar.

Öll fjölskyldan í hestum

Signý Sól, Hrönn, Jóhanna Margrét, Stella Sólveig tengdadóttir, Ásmundur Ernir og Snorri.

Hrönn Ásmundsdóttir er eiginkona Snorra, þau eiga þrjú börn. Ásmundur Ernir er 26 ára, Jóhanna Margrét er 23 ára og Signý Sól er 14 ára. Öll fjölskyldan hefur verið í hestamennsku frá því að börnin voru lítil. Inni í hesthúsi fjölskyldunnar á Mánagrund er fjöldi verðlaunabikara og verðlaunapeninga sem prýða kaffistofuna.

„Það er fullt af þessu já og meira til heima. Fjölskyldan á þetta saman. Tvö elstu börnin okkar eru tamningamenn í dag. Þau eiga kærasta og kærustu sem eru einnig í hestamennsku og þau búa á sitthvorum sveitabænum á Suðurlandi þar sem þau vinna við þetta. Við erum öll í hestamennsku. Þetta er lífsstíll sem gefur okkur mikið. Það er einnig góður félagsskapur hérna á Mánagrund. Mikil stemning alltaf og sérstaklega þegar útreiðar hefjast í kringum jól. Aðaltímabilið er frá desember fram í júlí, ágúst en þó eru margir að stunda útreiðar á sumrin og taka þátt í keppni þá og eða stunda ferðalög á hestum sem er afar vinsælt hér á landi þótt einhverjir hestar fari á beit strax í júní. Á veturna erum við með námskeiðahald og frábært æskulýðsstarf á Mánagrund. Reiðleiðirnar hérna eru óteljandi með fallegu útsýni til allra átta. Þetta eru gamlar rollugötur eða fornir slóðar um alla heiði og einnig reiðstígar sem félagar í Mána hafa sjálfir búið til,“ segir Snorri.

Er þetta dýrt sport?

„Kannski í upphafi þegar kaupa þarf nauðsynlegan útbúnað. Svo þarf auðvitað að kaupa hross og hús eða leigja pláss sem er alveg í boði hérna en þegar þetta allt er komið þá er þetta ekkert dýrt eða eins og einn sígarrettupakki á dag. Það er ekki meira en það. Beitilandið á sumrin hér á Mánagrund fyrir hestinn kostar aðeins um 4.000 krónur á mánuði,“ segir Snorri og bætir við að þetta sé sport sem getur leitt til betra lífs hjá svo mörgum eins og t.d. ungu fólki sem finnur engan tilgang í lífi sínu. „Gefðu syni þínum hest og þú gerir hann að manni,“ sagði Churchill eða eitthvað í þá áttina. Þetta er alveg rétt því hestar geta haft góð áhrif á okkur mannfólkið.“

Hvað færð þú út úr þessu?

„Útivist og hreyfing, fyrst og fremst. Samvera með skepnum og fólki. Afslöppun og ró frá stressinu í mannheimum. Það er hresst lið í hestamennsku, jarðbundið fólk. Mér finnst þetta streytulosandi, gott að koma hingað og kúpla sig út, njóta líðandi stundar. Hérna er fólk með sama áhugamál. Það má segja að þetta sé jafnréttisíþrótt því hér er ekkert kynslóðabil þegar komið er á fullorðinsár en þá er fólk að keppa sín í milli þvert á aldur og kyn. Þetta er annað heimili okkar og á vorin er geggjaður tími, alveg einstakt þá. Það er alltaf gaman þegar tímabilið hefst í kringum jólin,“ segir Snorri sem segir jafnframt frá því að passa þurfi upp á hestana um áramót til þess að þeir fælist ekki. Þetta kvöld hafa menn kveikt ljós inni hjá hestunum svo þeir sjái ekki eins vel blossana frá flugeldum sem skotið er á loft utandyra alls staðar. Útvarp er einnig haft á svo hestarnir heyri minna í hávaðanum frá flugeldunum og frekar í tónlist.

Mánafélagar mótmæla kísilveri

Það vakti mikla athygli þegar félagsmenn Mána mættu á hestbaki í mótmælagöngur bæjarbúa vegna kísilversins í Helguvík. Þeir voru mjög harðir og létu vel í sér heyra vegna starfsemi kísilversins.

„Við vorum í fararbroddi að mótmæla strax þegar reisa átti álverið í Helguvík og svo aftur þegar starfsemi kísilversins átti að fara af stað. Við lítum á þetta svæði sem frábært útivistarsvæði og vorum alveg hissa á golfurum að láta ekki í heyra meira í sér. Við viljum hafa hreint loft. Það veit engin hvað þessi útblástur mun gera okkur þó það verði lyktarlaus mengun. Menn hafa miklar áhyggjur af þessari starfsemi. Kísilver spúa út allskonar eiturefnum. Þegar til lengri tíma er litið, hvaða afleiðingar munu verða af starfsemi kísilversins fyrir okkur öll? Það var ótrúleg skammsýni af bæjaryfirvöldum á sínum tíma að búa til svona iðnaðarhverfi í Helguvík,“ segir Snorri ákveðið.

Skemmtilegur tími að hefjast hjá hestafólki

„Það er líflegt starf á Mánagrund framundan. Fræðslustarf og námskeiðahald með viðurkenndum leiðbeinendum verður í vetur að vanda en nú er nám í hestamennsku komið á háskólastig á Íslandi. Það er mikið um að vera hérna á veturna en á sumrin erum við með hestanámskeið fyrir börn. Það er mjög vinsælt. Þetta er fjölskyldusport og því fólk á öllum aldri saman hérna,“ segir Snorri og hlakkar greinilega til.



Signý Sól á hestinum Rektor frá Melabergi.

Rosti frá Melabergi

Ásmundur Ernir á Spöl frá Njarðvík keppir þarna á HM í Hollandi.

Jóhanna Margrét á Stimpli frá Vatni á HM í Danmörku.