Lífið snýst um körfubolta hjá systrunum í Keflavík
Systurnar Anna Ingunn (19) og Agnes María Svansdætur (16) byrjuðu báðar að æfa körfubolta í fyrsta bekk. Þær hafa báðar leikið fyrir yngri landslið Íslands og Anna Ingunn er þrettándi maður í A landsliðshópnum. Systurnar hafa verið að standa sig vel með meistaraflokki Keflavíkur, eina ósigraða liði Domino’s-deildar kvenna.
– Þið eruð að leika flottan bolta núna en hvernig hefur þetta verið?
Anna Ingunn: „Liðið er búið að vera að æfa stíft saman og við höfum verið allt að fimmtán á æfingu. Þannig að við höfum náð að fínpússa allt.
Á meðan harðari sóttvarnarreglur voru í gildi og við máttum ekki æfa saman sendi Jonni þjálfari [Jón Halldór Eðvaldsson] okkur æfingar og við reyndum að að fara eftir því, fórum út að hlaupa og æfðum saman.“
„Það er náttúrlega kostur að við gátum æft saman,“ segir Agnes María. „Við fórum einu sinni í sóttkví, Keflavíkurliðið. Þá gátum við tvær æft saman sem var geggjað. Við peppum hvor aðra upp.“
– Hvað er svo framundan, hvernig er stemmningin í hópnum?
„Stemmningin í hópnum er mjög góð, við erum mjög góðar saman,“ segir Anna Ingunn. „Framundan er pása í tvær vikur og við erum tvær að fara út með A landsliðinu, ég og Emelía [Ósk Gunnarsdóttir].“ Keflvíkingar eiga einn leik eftir fyrir hléið, útileik á móti botnliði KR sem verður leikinn á miðvikudaginn.
„Ég kom inn í landsliðið sem þrett-ándi maður, ég ferðast og æfi með liðinu og verð til taks ef þess þarf. Það er gott að fá reynsluna og fá að æfa með þeim.“
Báðar í landsliðum
– Þið hafið báðar verið að leika með yngri landsliðunum.
„Já, ég spilaði með U15,“ svarar Agnes María. „Svo datt allt niður í fyrra með U16 út af Covid og núna er ég í 35 manna hópi fyrir U18.“
„Ég er búin að komast í öll yngri landsliðin en næst á dagskrá er bara U20, síðasta yngra landsliðsverkefnið,“ segir Anna Ingunn.
– En hvernig líst ykkur á áframhaldið í deildinni? Þetta er rosalegt álag á leikmenn.
„Já – en okkur finnst þetta bara gaman, að spila svona mikið. Við erum hungraðar eftir pásuna og það er bara gaman að fá að spila, segir Anna. „Við erum frekar spenntar fyrir framhaldinu. Vonandi heldur þetta svona áfram, að við megum spila.“
– Hafið þið aldrei verið í öðrum íþróttum?
„Nei, ég prófaði einu sinni fótboltaæfingu en leist ekkert á það,“ segir Anna Ingunn en Agnes María segist hafa æft dans í nokkur ár. Þær einbeita sér að körfubolta og fátt annað kemst að.
– Hvað gerið þið utan körfuboltatímans?
„Ég er bara að vinna,“ segir Anna Ingunn; „og að hitta vinkonurnar og kærastann, svo ætla ég í háskóla í haust og læra viðskiptafræði en ég tók mér pásu eftir stúdent til að ákveða hvað ég vildi læra.“
Hafa hugsað sér að fara út í nám
– Þú hefur ekki sett stefnuna á að fara út í nám?
„Jú, ég var alveg að hugsa um að fara til Bandaríkjanna í skóla en það er búið að vera svolítið erfitt að reyna að komast út núna út af Covid – en það er alltaf hægt að skoða það. Mig langar alveg að prófa að fara eitthvað út.“
„Ég set stefnuna á að fara til Bandaríkjanna í skóla,“ segir Agnes María en hún er núna á fyrsta ári í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. „Ég er ekki búin að ákveða hvað ég ætla að læra en sálfræði er eitthvað sem ég hef áhuga á.“
– Segið mér, eigið þið einhverjar fyrirmyndir í sportinu?
Systurnar eru sammála um að þær eiga enga eina fyrirmynd. „En það er margt fólk sem ég fylgist með og lít upp til,“ segir Anna. „Íþróttamenn úr öllum greinum.“
„Ég hef ekki haft neina eina fyrirmynd,“ segir Agnes; „en Hörður Axel [Vilhjálmsson] er búinn að kenna mér mjög margt. Það er margt sem hann hefur kennt mér síðust þrjú, fjögur ár og ég lít mikið upp til hans,“ og systir hennar samsinnir þessu og segir hann vera búinn að hjálpa þeim mjög mikið.
„Svo er bara allir á völlinn [þegar það verður leyft] – áfram Keflavík!,“ segja systurnar að lokum.
Anna (að ofan) og Agnes í baráttunni með Keflavík nýlega.
Með fjölskyldunni. Frá vinstri: Hjördís, frænka systranna og samherji í meistaraflokki Keflavíkur, Hafsteinn, afi þeirra, Hjördís Gréta, amma þeirra, Anna og Agnes.
Anna Ingunn á fullri ferði í leik gegn Val.
VF-mynd: Hilmar Bragi
Agnes María í sigurleik með Keflavík gegn Val í síðustu viku.