Lífið er rétt að byrja eftir fimmtugt
Elsa Pálsdóttir er Suðurnesjakona sem sannarlega hefur krafta í kögglunum. Elsa gerði sér lítið fyrir og varð Evrópumeistari í klassískum kraftlyftingum um helgina, auk þess setti hún fimm heims- og Evrópumet á Evrópumóti öldunga sem fór fram í Tékklandi.
Elsa Pálsdóttir, 61 árs kraftlyftingakona úr Garðinum, varð Evrópumeistari og setti auk þess fimm heimsmet og fimm Evrópumet á Evrópumóti öldunga í kraftlyftingum sem fór fram í Pilzen í Tékklandi um helgina. Elsa keppir í -76 kg þyngdarflokki í aldurshópnum 60–69 ára og varð að auki stigahæsti öldungurinn í sínum flokki þvert á þyngdarflokka.
Árangur Elsu er einstakur og eftirtektaverður en hún hefur ekki æft klassískar kraftlyftingar nema í rétt rúmlega tvö ár og keppti fyrst í greininni haustið 2019.
Elsa lyfti fyrst 117,5 kg í hnébeygju sem er nýtt heimsmet. Þá tvíbætti hún metið með því að lyfta næst 125 kg og svo 130 kg, fjórtán kílóa bæting á fyrra heimsmeti. Hún lyfti 52,5 kg og 60 kg í bekkpressu og í réttstöðulyftu lyfti Elsa 140 kg og 157,5 kg sem er einnig nýtt heimsmet. Með árangri sínum bætti Elsa einnig heimsmetið í samanlögðum árangri um 12,5 kg en hún lyfti samtals 347,5 kg á mótinu.
Fann sína styrkleika fyrir tveimur árum
Víkurfréttir slógu á þráðinn til Elsu þar sem hún var stödd í Tékklandi og óskuðu henni til hamingju með þennan einstaka árangur.
„Já, takk fyrir það. Þetta var svolítið flott hjá manni.“
– Hvernig stendur á því að kona á gamals aldri byrjar að stunda kraftlyftingar?
Elsa hlær og segir: „Heyrðu, stórt er spurt. Málið er það að ég hef alltaf verið rosalega dugleg í líkamsrækt en eftir fimmtugt fór ég að keppa í þrekmótum með liði sem kallast Fimm fræknar. Svo er það ekki fyrr en fyrir svona tveimur, þremur árum að ég uppgötva í hverju væri keppt í kraftlyftingum, ég hafði aldrei spáð í kraftlyftingar. Þegar ég áttaði mig á því í hverju væri keppt þá reyndust það bara vera styrkleikarnir mínir – og þar sem ég er komin af léttasta skeiði, eins og þú segir, þá ákvað ég að gefa þessu tækifæri og einbeita mér að kraftlyftingum.“
Fyrsta mótið sem Elsa tók þátt í var lítið kraftlyftingamót í tengslum við Sólseturshátíðina í Garðinum. „Það var í fyrsta skipti sem ég keppti í kraftlyftingum og vissi ekkert út á hvað þetta gekk – en þarna sá ég að ég ætti alveg heima í þessu og ákvörðunin var eiginlega tekin. Síðan þá er ég búin að æfa kraftlyftinga almennilega.“
Elsa hefur alltaf æft í Lífsstíl og hún æfir kraftlyftingarnar þar en hún keppir fyrir hönd Massa.
„Ég var í fótbolta fram yfir tvítugt en síðan þá hef ég bara verið í fjölbreyttri líkamsrækt og lifað heilbrigðu líferni. Í janúar 2011 ákváðum við svo nokkrar svona stútungskonur að prófa að setja saman lið og taka þátt í móti sem var haldið í Keflavík. Það var bara gaman. Þá hafa þær í Fimm fræknar sennileg séð að maður gæti eitthvað í þessu því þær pikkuðu í mig og síðan þá hef ég verið að æfa mjög stíft með þeim, allt að sex sinnum í viku.“
– Eftir að þú fórst að æfa svona markvisst, hefurðu þá tekið stórstígum framförum?
„Já, eiginlega bara ótrúlegum. Þótt maður sé orðinn fullorðinn er maður að sjá stöðugar bætingar. Ég hef sett ótalmörg Íslandsmet og það er ein hérna úti með mér sem situr í stjórn Kraftlyftingasambands Íslands. Hún var að segja að ég ætti nú þegar fjörutíu Íslandsmet, það hefur sennilega eitthvað bæst í það með þessum árangri núna,“ segir Elsa kát. „Þannig að þetta er orðið ágætt á þessum tveimur árum.“
Á framtíðina fyrir sér
„Aldur er svo afstæður,“ segir Elsa, „og það er svo merkilegt að heima er maður svolítið gamall í þessu en hérna er bara fullt af fólki sem er eldra en ég. Elsta konan sem keppti hér er fædd ‘42 og ég held að elsti karlinn sé fæddur ‘36. Þannig að maður á framtíðina fyrir sér í þessu. Lífið er rétt að byrja eftir fimmtugt.“
Elsa á tvö börn, dóttir hennar keppti í sundi og sonur hennar var í körfubolta. Elsa hlær þegar hún segist eiga tvö börn sem séu orðin svolítið fullorðin: „Ég á einmitt eftir að segja syni mínum það að á næsta ári getum við farið saman á öldungamót, hann í Master einum og ég í Master þremur, því hann dettur inn í M1 þegar hann verður fertugur á næsta ári.“
„Ég hafði aldrei verið að spá í einhver heims- eða Evrópumet. Ég vissi svo sem um Íslandsmetin en svo hafði KRAFT samband við Ellert, sem er formaður Massa, og spurði hvort ég ætlaði að fara á þetta Evrópumót.
Mér brá eiginlega og þurfti að taka mér smá umhugsun því ég hafði ekkert hugsað mér að fara að keppa erlendis. Svo gat ég ekki slegið hendinni á móti þessu og sló til. Þá hafði ég ekki hugmynd um einhver met – en svo sendi hún, sem er með mér hérna úti, mér lista yfir heimsmetin og þá sá ég að ég ætti nú bara góða möguleika. Auðvitað veit maður aldrei hvernig gengur þegar maður fer svona í fyrsta sinn á stóra sviðið – en það small í þetta sinn.“
Elsa segir að hún hafi verið búin að taka lyftur sem voru yfir heimsmetum, hún hafi gert það á Íslandsmótinu sem var haldið í júní. Þær lyftur voru hins vegar ekki teknar gildar þar sem engir alþjóðlegir dómarar voru á mótinu. „Þannig að ég þurfti að fara á svona alþjóðlegt mót til að fá þessar þyngdir gildar.“