Liðsstyrkur til Grindavíkur
Körfuknattleikslið Grindavíkur hefur sótt um félagsskipti til Körfuknattleikssambands Íslands fyrir þýska leikmanninn Andreas Bloch.
Andreas er 204 cm á hæð og kemur til með að sinna hlutverki miðherja hjá Grindvíkingum. Hann verður löglegur með Grindvíkingum þann 10. desember þegar Grindavík leikur í Lýsingar bikarnum.
„Þetta eru nauðsynlegar aðgerðir hjá okkur, við höfum ekki á sömu breidd að skipa í leikstöðum eins og t.d. Njarðvík og Keflavík og því vantar okkur sárlega mann í miðjuna,“ sagði Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Grindvíkinga, í samtali við Víkurfréttir. „Við ætlum okkur að vera í keppninni um titilinn og höfum fulla trú á því að Andreas muni hjálpa okkur við það,“ sagði Friðrik Ingi að lokum.
Þegar ljóst var að Helgi Jónas Guðfinnsson myndi taka sér frí frá körfuknattleik um hríð af persónulegum ástæðum var ljóst að Grindvíkingar þyrftu á leikstjórnanda að halda. Damon Bailey, sem þá lék með Grindvíkingum, var látinn fara og Jeremiah Johnson ráðinn til liðsins. Grindvíkingar þurftu að fylla skarð Bailey´s undir körfunni og nú er Andreas Bloch á leið til liðsins.
VF-mynd: Bloch með í leik með háskólaliðinu Villanova í Bandaríkjunum.