Liðsauki til Keflavíkurstúlkna
Nýjir og gamlir leikmenn spiluðu með Keflavík í Iceland Express-deild kvenna á laugardag þegar þær unnu Fjölni örugglega 109-77. Þær Birna Valgarðsdóttir spilaði sinn fyrsta leik í vetur en hún er byrjuð á ný eftir barnsburðarleyfi. Einnig lék með liðinu nýr erlendur atvinnumaður sem heitir Susan Biemer. Er hún þýskur landsliðsmaður sem hefur leikið á Ítalíu að undanförnu.
Jón Halldór Eðvarsson, þjálfari kvennaliðs Keflavíkur, var nokkuð ánægður með framlag Susan Biemers í leiknum í dag þegar blaðamaður hafði samband við hann. ,,Hún stóð sig bara mjög vel.Hún gerði það sem sem hún á að gera,” sagði Jón Halldor en nýji leikmaður spilar stöðu framherja.
Jón Halldór sagði að eftir að Bryndís Guðmundsdóttir meiddist í nóvember var hafin leit að leikmanni til að fylla skarð hennar. ,,Ef liðið ætlar sér að vera Íslandsmeistari þá þarf að taka fráköst. Okkar stærsti leikmaður er Margrét Kara sem er 175 sm á hæð. Við höfum verið að vinna leiki en samt tapa frákastabaráttunni. Ef við ætlum okkur að vera Íslandsmeistarar þá gengur þetta ekki upp. Það er bara þannig að ef þú ætlar að vinna þá þarf að taka fráköst.”
Susan Biemer er 29 ára gömul og hefur verið í þýska landsliðinu síðan árið 2001. Hún lék í 2. deildinni á Ítalíu áður en hún kom til Íslands en Jón Halldór sagði að liðið sem hún spilaði með á Ítalíu hafi ekki staðið við sínar skuldbindingar og því hafi hún verið á lausu.
VF-mynd/Þorgils - Susan Biemers lék sinn fyrsta leik með Keflvíkingum í kvöld