Lið sem á eftir að gera góða hluti á komandi árum
Erna Hákonardóttir situr fyrir svörum um ungt lið Njarðvíkur í kvennakörfunni
Kvennalið Njarðvíkur steig stórt skref í áttina að úrvalsdeildarsæti þegar liðið tryggði sér deildarmeistarartitilinn í 1. deild kvenna á dögunum. Liðið féll úr deild þeirra bestu á síðasta keppnistímabili eftir nokkuð glæsta tíma þar sem að félagið varð m.a. Íslands- og bikarmeistari tímabilið 2011-2012. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og leikmenn komið og farið. Kjarni meistaraliðsins er horfinn á braut og liðið að mestu leyti skipað ungum leikmönnum sem félagið hefur alið sjálft í bland við aðra unga leikmenn frá öðrum Suðurnesjaliðum. Víkurfréttir settu sig í samband við Ernu Hákonardóttur, sem er stigahæsti leikmaður liðsins í vetur með tæp 20 stig að meðaltali í leik, og spurðist fyrir um hið unga, kraftmikla Njarðvikurlið og veturinn sem er að líða.
Hvernig blasir veturinn við þér þegar þú lítur til baka?
Tímabilið er búið að ganga mjög vel hjá okkur og við höfum aðeins tapað einum leik. Við vissum í raun ekki hve sterk deildin væri áður en leiktíðin hófst. Við sýndum þó að við eigum fullt erindi úrvalsdeildina þegar við slógum út úrvalsdeildarlið KR í bikarnum. Það bjóst enginn við því.
Hvernig var með leikmannamál eftir að hafa fallið um deild? Misstuð þið einhverja leikmenn sem að þurfti að fylla í skarð fyrir?
Við misstum þrjár lykilstelpur frá því í fyrra. Guðlaug Björt og Ásdís Vala fóru í Grindavík, Salbjörg til Hamars og fleiri sem hættu af öðrum ástæðum. Það má í raun segja að ég, Andrea og Guðbjörg höfum verið þær einu sem eftir voru sem spiluðu fyrir Njarðvík í fyrra ásamt erlenda leikmanninum Kittu, sem gat því miður ekki klárað tímabilið vegan barnsburðar. Við fengum til okkar Elínoru Einarsdóttur og Maríu Jónsdóttur sem komu frá Keflavík. Að öðru leyti eru þetta allt ungar og efnilegar stelpur sem komu upp úr yngri flokka starfi félagsins sem hafa staðið sig mjög vel og spilað stórt hlutverk í liðinu. Þar má nefna Björk Gunnarsdóttur, leikstjórnandann okkar, og Júlíu Scheving.
Hvernig er leikmannahópurinn settur saman hjá ykkur?
Átta leikmenn eru uppaldnar í Njarðvík, svo erum við fjórar sem spiluðum upp alla yngri flokka í Keflavík og ein sem er uppalin í Grindavík. VIð erum því allar frá Suðurnesjum. Þetta er nýtt lið sem er rétt að smella saman. Lið sem á eftir að gera góða hluti á komandi árum.
Nú tekur Friðrik Ingi Rúnarsson við liðinufyrir yfirstandnandi tímabil. Hvaða lína var sett þegar hann tók við?
Stefnan var strax tekin á að vinna deildina og tryggja okkur sæti í úrvalsdeild. Friðrik Ingi er ólíkur öðrum þjálfurum sem ég hef haft en mjög góður í sínu fagi. Hann er gífurlega klár og reyndur þjálfari sem veit hvað hann er að gera. Hann hefur lagt mikið upp úr varnarleiknum því þá kemur sóknin að sjálfu sér. Einnig leggur hann áherslu á að hver og einn leikmaður trúi á sjálfan sig og þori að taka af skarið í leikjum.
Hópurinn var allur meðvitaður um okkar markmið og við stóðum saman og hjálpuðumst að að ná okkar markmiðum með að sigra deildina. En stóra markmiðið er enn eftir, tryggja okkur sæti í úrvalsdeild þar sem allir vilja spila.
Er mikil samheldni í liðinu? Eruð þið duglegar að hittast utan æfinga og leikja til að skapa betri liðsanda?
Samheldnin í liðinu er fín og liðsandinn góður, við hittumst af og til utan æfinga en ég viðurkenni það alveg að við mættum vera mun duglegri að hittast og efla liðsandann enn betur.
Hvernig hefur stuðningurinn við liðið verið? Eru áhorfendur duglegir að mæta og hvetja liðið áfram þótt að liðið sé að spila í 1. deild eins og er?
Það má segja að stuðningurinn sé ekki jafn mikill og þegar liðið spilaði í úrvalsdeid, aðeins örfáar hræður í stúkunni. En Bylgja Sverrisdóttir hefur verið dugleg að mæta með stelpurnar sem hún er þjálfa og þær styðja vel við bakið á okkur.
Nú eigið þið ennþá eftir að fara í gegnum úrslitakeppni 1. deildar áður en þið getið fagnað sæti í úrvalsdeild. Er erfitt að halda sig á jörðinni núna eftir að hafa farið í gegnum tímabil þar sem að mótspyrnan var lítil?
Við þurfum að halda haus, æfa vel og einbeita okkur því við erum langt frá því að vera búnar að tryggja okkur sæti í úrvalsdeild með því að vinna deildina auðveldlega. Það hefur ekkert að gera með hvernig deildin endaði þegar kemur að úrslitakeppni. Nú byrjar bara ný keppni og ný markmið verða sett.
Þú áttir gott tímabil og ert stigahæst í liðinu ásamt erlendum leikmanni ykkar, Nikittu Gartrell. Settir þú þér einhver persónuleg markmið fyrir tímabilið sem að þú vannst markvisst að fyrir leiktíðina?
Ég kannski setti mér ekki beint nein persónuleg markmið en þegar við féllum var ég staðráðin að halda áfram í Njarðvík og hjálpa til við að komast aftur upp í úrvalsdeild. Ég æfði vel síðasta sumar, vann mikið í mínu líkamlega formi og persónulega fannst mér ég koma í mjög vel undan sumri og vel stemmd inn í tímabilið.
Áttu þér einhver frekari markmið með körfuboltann? Einhverjir skóladraumar í Ameríku?
Ég stunda háskólanám hérlendis og Ameríka var aldrei eitthvað sem heillaði mig. Eina markmiðið sem ég hef að hugsa um núna er að koma Njarðvík í úrvaldeild að ári. Lengra er ég ekki að hugsa í augnablikinu.
Einhver skilaboð til stuðningsmanna Njarðvíkur svona rétt fyrir úrslitakeppnina?
Kæru stuðningsmenn, núna þegar úrslitakeppnin er að fara byrja hvet ég ykkur til að mæta og styðja við bakið á okkur. Við þurfum á öllum ykkar stuðning að halda.
ÁFRAM NJARÐVÍK!