Lið Kolbrúnar hreppti bronsið á EM
Blandað landslið Íslands í fimleikum keppti í morgun í úrslitum á Evrópumeistaramótinu sem haldið er í Maribor í Slóveníu. Liðið stóð sig frábærlega, bætti sig í öllum greinum frá því í undankeppninni og landaði bronsi. Okkar kona, Kolbrún Júlía Guðfinnsdóttir Newman úr Keflavík gat ekki verið með liði sínu á lokadeginum vegna veikinda en Bára Stefánsdóttir kom inn í hennar stað.
RÚV.is sýndi beint frá keppninni og greindi frá.
Íslenska liðið hóf keppni í gólfæfingum og fékk 21,066 stig fyrir dansinn. Í stökki á dýnu fékk Ísland, 17,8 stig sem er gríðarleg bæting frá því á fimmtudag. Stökk á trampólíni var lokagrein Íslands og einkunnin 17,2 niðurstaðan. Samtals fékk blandað lið Íslands 56,066 stig sem er bæting upp á tæp þrjú stig frá því í forkeppninni. Þetta er í fyrsta sinn sem blandað lið Íslands vinnur til verðlauna í mótinu. Svíar fögnuðu sigri eftir frábæra frammistöðu og Danir urðu í öðru sæti.