Lið FS í þriðja sæti í Þrekmóti Framhaldsskólanna
Þrekmót framhaldsskólanna fór fram um liðna helgi í HK húsinu í Digranesi þar sem keppt var um titilinn „Hraustasti framhaldsskóli Íslands.“ Fjölbrautarskóli Suðurnesja átti titil að verja en endaði í 3. sæti í ár. Sigurvegari mótsins var Verzlunarskóli Íslands og annað sætið hreppti Fjölbrautaskólinn í Garðabæ.
Lið Fjölbrautaskóla Suðurnesja var skipað þeim Guðmundi Juanito Ólafssyni, Atla Hauki Brynleifssyni, Nínu Kareni Víðisdóttur og Ingibjörgu Önnu Artúrsdóttur.
Átta lið mættu til leiks, en hvert lið samanstóð af tveimur strákum og tveimur stelpum frá sama skóla. Keppt var í 6 keppnisgreinum sem reyndu jafnt á styrk og þrek keppenda. Fyrstu tvær keppnisgreinarnar reyndu á styrk keppenda þar sem liðin reyndu framhnébeygjur og bekkpressu. Þá tóku við 4 keppnisgreinar með mismunandi samsetningu af æfingum sem reyndu á þrek, þol og snerpu. Meðal annars voru jafnfætishopp, sprettir, ketilbjölluæfingar og róður.
Kristjana Hildur Gunnarsdóttir, þjálfari FS-inga, segir markmið liðsins hafa verið að sigra enda höfðu þau titil að verja. „Suðurnesjamenn eru keppnisfólk og stefna alltaf á gullið. Guðmundur Ólafsson var sá eini sem var í liðinu í fyrra, þar sem hinir eru útskrifaðir. Liðið í ár var því skipað af þremur nýjum liðsmönnum og einum reynslubolta. Þau stóðu sig öll mjög vel og gerðu sitt besta. Þetta eru mjög öflugir krakkar sem eiga svo sannarlega framtíðina fyrir sér í þrekkeppnum,“ segir Kristjana.
Var eitthvað sem fór úrskeiðis hjá liði FS-inga?
Nei, það var ekkert sem fór úrskeiðis hjá okkur. Lið FG sem lenti í 2. sæti og lið Versló sem varð í 1. sæti voru bara sterkari að þessu sinni. Þess má geta að í liði FG var Suðurnesjamærin Katla Ketilsdóttir, en hún átti stóran þátt í því að lið FG náði 2. sætinu, það er því verðugt markmið að ná henni í FS fyrir næsta mót þar sem Nína Karen mun væntanlega útskrifast á næstu mánuðum og þarf því að fylla hennar skarð fyrir næsta ár. Guðmundur, Atli Haukur og Ingibjörg Anna verða mjög líklega áfram í skólanum næsta ár, svo að það er nægur tími til að efla þau. Framtíðin er því björt hjá FS,“ segir Kristjana að lokum.