Lið frá Suðurnesjum hafa alltaf komist í undanúrslit - aðeins 3 sinnum ekki leikið til úrslita
Njarðvíkingar, sem voru fyrsta liðið til að detta út úr úrslitakeppni Domino’s deildar karla í körfubolta hafa oftast orðið Íslandsmeistarar eftir að úrslitakeppnin hófst árið 1984. Aldrei frá upphafi úrslitakeppninnar hefur lið frá Suðurnesjum, Njarðvík, Keflavík eða Grindavík, ekki verið í undanúrslitum og aðeins þrisvar af 34 skiptum, hefur lið frá Suðurnesjum ekki leikið til úrslita um titilinn. Nú bregður svo við að eftir sjö leiki liðanna í 8 liða úrslitum hefur lið frá Suðurnesjum ekki unnið viðureign. Á brattann er að sækja fyrir Grindavík og Keflavík og tapi bæði liðin í þriðja leiknum fara öll Suðurnesjaliðin út úr keppninni og án sigurs í 8 liða úrslitum. Það hefur aldrei áður gerst í sögu úrslitakeppninnar.
Njarðvíkingar eiga flesta Íslandsmeistaratitla eftir að úrslitakeppnin byrjaði árið 1984 eða 11 samtals. Nágrannar þeirra úr Keflavík eiga níu titla sem og KR. Grindvíkingar eiga þrjá og Haukar og Snæfell sitt hvorn. Grindvíkingar hafa oftast orðið í öðru sæti eða 8 sinnum og Keflvíkingar eiga 5 silfurpeninga.
Keflvíkingar unnu síðast 2008.