Létu sig ekki vanta
Þessir kátu Keflvíkingar létu sig ekki vanta á leik Lillström og Keflavíkur í gær og voru mættir í stúkuna um klukkustund fyrir leik. Feðgarnir Sigurður t.h. og Árni t.v., voru vissir í sinni sök og töldu að Keflavík myndi tapa stórt en Jóhann, fyrir miðju, hafði trú á sínum mönnum.
Sigurður og Árni eru búsettir í Noregi en Jóhann flaug út til þess að hitta bróður sinn og föður og styðja við bakið á sínu félagi.
Sigurður taldi að of mikill munur væri á norsku og íslensku deildinni og sagði möguleika Keflavíkur litla sem enga, Árni tók í sama streng en Jóhann viðurkenndi að það væri þungt verkefni fyrir höndum hjá Keflavík en sagði að menn yrðu að berjast og gefa allt í leikina.
Hvort Sigurður og Árni fylgi fordæmi Jóhanns og mæti til Keflavíkur næstu helgi verður að koma í ljós en þar mun Jóhann ekki láta sig vanta.
Í dag er frjáls dagur hjá Keflavíkurliðinu en haldið verður upp á flugvöll kl. 19 að staðartíma og munu flestir líklegast nýta daginn til þess að sleikja sólina og ná í sér í smá lit áður en þeir koma heim á klakann.
VF-mynd/ [email protected]