Léttur sigur Grindvíkinga (Video)
Friðrik Ingi Rúnarsson fór vel af stað með lærisveina sína í Grindavík þegar þeir unnu stóran sigur á Haukum í fyrstu umferð Iceland Express-deild karla, 103-73.
Þeir gulklæddu virtust kunna vel við sig á nýju og glæsilegu parketgólfi í Röstinni og voru fljótir að ná góðu forskoti. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 28-17, en sterkur varnarleikur heimamanna var að skila þeim fjölmörgum auðveldum körfum.
Stórskyttur Grindvíkinga, þeir Páll Axel Vilbergsson og Guðlaugur Eyjólfsson voru sjóðheitir. Páll gerði sex 3ja stiga körfur í leiknum og Guðlaugur bætti fjórum slíkum við. Þá virðist hinn þrautreyndi Hjörtur Harðarson hafa gengið í gegnum endurnýjun lífdaga eftir skiptin yfir til Grindavíkur og fór hreinlega hamförum. Hann gerði sex 3ja stiga körfur úr sjö tilraunum og gaf auk þess sex stoðsendingar og stal þremur boltum.
Annar nýr leikmaður Grindavíkur, Páll Kristinsson, átti ekki jafn góðan leik og skoraði aðeins 6 stig áður en hann fór af velli með 5 villur.
Þrátt fyrir mikla baráttu náðu Haukar ekki að saxa á forskotið fyrr en í síðasta leikhluta þegar úrslitin voru löngu ráðin.
Friðrik sagði í samtali við Víkurfréttir í lok leiks að væri glaður með að vera kominn aftur í boltann og gaman væri að byrja með sigri. „Sumir okkar leikmanna eru enn að ná sér eftir meiðsli og mér fannst það koma niður á sóknarleik okkar í kvöld. Þessi leikur vannst fyrst og síðast á varnarleik. Haukarnir voru grimmir í kvöld, á mörkunum að vera grófir, en ég tek ofan fyrir þeim með það. Þeir ætla að afsanna hrakspár um gengi þeirra í vetur og ætluðu að taka okkur í bólinu hér á heimavelli. Við þurftum að hafa mikið fyrir þessu.“
Hann bætti því við að það væri enn margt sem mætti laga í leik þeirra þannig að þeir munu þurfa að leggja sig mikið fram til að ná góðum úrslitum.
Tölfræði leiksins
Video: Myndskeið úr leiknum
VF-myndir og video/Þorgils