Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sunnudagur 14. mars 2004 kl. 20:51

Létt hjá Njarðvík, Grindavík og KR fara í oddaleik

HAUKAR-NJARÐVÍK
Njarðvíkingar unnu í kvöld stórsigur, 104-61, á Haukum í 8-liða úrslitum Intersport-deildarinnar og tryggðu sér þannig sæti í undanúrslitunum.

Sigur Njarðvíkinga var aldrei í hættu þar sem þeir byrjuðu með látum og voru komnir með 15 stiga forskot strax eftir fyrsta leikhluta, 30-15.
Ekki létu þeir staðar numið þar heldur bættu alltaf í og æddu fram úr lánlausum heimamönnum sem sáu aldrei til sólar í leiknum.
Ekki var veikan blett að sjá á sterku Njarðvíkurliðinu sem virðist til alls líklegt í næstu umferðum. Allir fengu að spreyta sig og komust allir á blað í stigaskorun.

Friðrik Ragnarsson var í skýjunum með frammistöðu sinna manna í leiknum og sagði síðustu leiki vissulega gefa tilefni til bjartsýni. „Allir strákarnir voru að spila geysilega vel í kvöld. Við vissum að ef við tækjum vel á þeim í upphafi myndu Haukarnir brotna niður og það kom líka á daginn.“

Stigahæstir:
Njarðvík: Brandon Woudstra 22, Brenton Birmingham 16, Halldór Karlsson 16.
Haukar: Michael Manciel 21, Sævar Haraldsson 12.

Hér má finna tölfræði leiksins


KR-GRINDAVÍK
Grindvíkingar skráðu nafn sitt í sögubækur úrvalsdeildar karla í kvöld er þeir lögðu KR-inga að velli í DHL-höllinni, 95-108. Þar með urðu þeir fyrsta liðið í sögu úrslitakeppninnar til að tryggja sér oddaleik eftir að hafa tapað fyrsta leik 8-liða úrslitanna á heimavelli. Oddaleikurinn fer fram í Röstinni í Grindavík á þriðjudaginn.

Grindvíkingar mættu sannarlega dýrvitlausir til leiks í kvöld og hreinlega óðu yfir heimamenn í fyrsta leikhluta. Gríðarlega sterk vörn gaf af sér margar skyndisóknir fyrir Grindvíkinga sem leiddu 42-13 eftir fjórðunginn.
Þessi munur hélst meira og minna fram að síðasta leikhluta þar sem Grindvíkingar slógu af og hleypti KR nær sér, en sigurinn var þó aldrei í hættu.

Friðrik Ingi Rúnarsson sagði að sigurinn skipti mestu máli en ekki endilega hversu stór hann væri. „Við vorum að spila vel í kvöld þar sem vörnin var frábær, en við vorum kannski full kærulausir undir lokin.  Nú er bara að klára þetta á þriðjudaginn.“

Stigahæstir Grindvíkinga:
Darrel Lewis 34, Anthony Jones 24, Pétur Guðmundsson 14.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024