Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Lék landsleiki í tveimur íþróttagreinum sama árið
Þorsteinn í leik í Belgíu. Myndir úr einkasafni
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 19. apríl 2024 kl. 06:15

Lék landsleiki í tveimur íþróttagreinum sama árið

Keflvíkingurinn Þorsteinn Bjarnason átti magnaðan íþróttaferil og lék lengi knattspyrnu og körfubolta í efstu deild. Varð Íslandsmeistari í körfu með Keflavík og Njarðvík. Nú er það golfboltinn sem hann eltir.

„Ég spilaði sex A-landsleiki í körfubolta og þrjá í fótbolta árið 1978,“ segir Þorsteinn Bjarnason sem við titlum sem íþróttamann úr Keflavík. Hann er líklega sá síðasti sem náði þeim einstaka árangri að spila A-landsleik í tveimur íþróttagreinum á sama árinu. Fótboltinn var alltaf íþrótt númer eitt hjá Steina en hann er einn af mörgum frábærum markvörðum sem ól manninn í Keflavík. Hann spilaði lengst af með uppeldisfélaginu í Keflavík en hann lék auk þess um tíma sem atvinnumaður í Belgíu. Svo fór hann hinum megin á Reykjanesskagann og spilaði með Grindavík, síðasta árið þjálfaði hann Grindvíkingana sömuleiðis. Þorsteinn lauk störfum hjá Olís daginn sem viðtalið var tekið og hefur ekki áhyggjur af því að leiðast í framtíðinni.

„Já, nei, það hefur einhver annar en ég verið að baktala þig fyrst þú ert með hiksta,“ sagði Þorsteinn og hló þegar blaðamaður skaut að honum hvort hann hefði verið orðinn súr að vera ekki tekinn í viðtal eins og þrír aðrir keflvískir markmenn að undanförnu. Víkurfréttir hafa tekið viðtal við nafnana Bjarna Sig og Bjarna Óla auk Skúla Jónssonar. Hringnum er ekki alveg lokað með þessu viðtali við Þorstein Bjarnason, nafni hans Ólafsson er sá elsti í röð frábærra keflvískra markmanna og svo eru aðrir yngri, t.d. Ólafur Pétursson og Ólafur Gottskálksson. Hver veit nema fleiri keflvíska markverði reki á fjörur Víkurfrétta?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þorsteinn byrjaði knattspyrnuferilinn reyndar ekki í markinu enda ekki spennandi hlutskipti að kasta sér á eftir boltanum á mölinni sem var vettvangur ungra Keflvíkinga á þeim árum sem Þorsteinn byrjaði að æfa.

„Ég er Keflvíkingur í húð og hár, mamma er reyndar úr Garðinum en var flutt í Keflavík þegar ég fæddist og þar ólst ég upp. Fyrstu þrjú skólaárin var ég í gamla skólahúsinu á Skólavegi, mér fannst skrítið að vera með sama kennara og hafði kennt pabba mínum áður, Jóna á Framnesi kenndi lengi og var góður kennari. Svo fór ég auðvitað í barnaskólann sem heitir Myllubakkaskóli í dag og eftir gagnfræðaskóla fór ég í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Ég byrjaði fljótlega að æfa fótbolta, byrjaði sem útispilari en svo vorum við líka að leika okkur í fótbolta á Jónsmiðum. Þar var gras og einhverra hluta vegna ákvað ég að fara í markið og fannst það bara ansi gaman. Þetta fréttist síðan inn á fótboltaæfingarnar og þar með var ég kominn í markið á gömlu mölinni. Grasvöllurinn í Keflavík kom ekki fyrr en árið 1967 en var bara fyrir meistaraflokkinn, fram að því lék Keflavík heimaleiki sína á grasvellinum í Njarðvík, ég á minningar af mér sem gutta að fara með pabba á leiki þar. Ég veit ekki hvort ég man þegar Keflavík varð fyrst Íslandsmeistari 1964 en man auðvitað vel eftir þegar við urðum meistarar ‘69 og aftur ‘71. Ég átti ekki beint neina íslenska markmannsfyrirmynd þegar ég var að byrja, nafni minn Ólafsson er sex árum eldri og var ekki byrjaður að spila með meistaraflokki þegar ég byrjaði. Hann var kominn í markið ‘71 ef ég man rétt og ég fylgdist auðvitað með honum þá og leit upp til. Mín fyrirmynd þegar ég byrjaði var markmaður Arsenal, Bob Wilson. Vinur pabba hafði farið til Englands og keypti Arsenal-búninginn á mig og þar með var ljóst með hverjum ég myndi halda í enska boltanum. Ég fór að grúska í enskum fótboltablöðum og sá mynd af Bob sem varð mín hetja. Mér gekk ágætlega næstu ár og var kominn á bekkinn hjá nafna mínum árið 1974 þegar ég var sautján ára og var honum til halds og trausts næstu þrjú árin, þegar hann fór í nám og spilaði samhliða með Gautaborg í Svíþjóð. Ég var því kominn með markmannsstöðuna fyrir ‘77 tímabilið og í lok þess tímabils var ég valinn í A-landsliðið, var varamarkmaður fyrir Sigurð Dagsson sem var að leika sinn síðasta landsleik. Þetta var leikur á móti Norður-Írum í Belfast og var fyrsti landsleikurinn eftir óeirðirnar sem höfðu geisað í landinu. Við vorum í lögreglufylgd allan tímann en það sem er eftirminnilegast frá þessum leik, sjálfur Georg Best hafði snúið til baka skömmu áður og var valinn í landsliðið. Hann var nú varla svipur hjá sjón á þessum tíma, gat ekki neitt í þessum landsleik en það skipti engu máli fyrir stuðningsmennina, í hvert skipti sem hann snerti boltann varð allt brjálað. Ég tók auðvitað í spaðann á honum eftir leikinn, þetta er skemmtileg minning að eiga.“

A-landsleikur í fótbolta og körfubolta 1978

Þorsteinn var greinilega mikill íþróttaálfur, fljótlega var hann líka byrjaður að leika sér í körfubolta en á þeim tíma spilaði Keflavík undir merkjum Íþróttafélags Keflavíkur, ÍK. Þetta félag var með körfubolta og frjálsar íþróttir en svo rann það undir ÍBK síðar meir. Þegar Þorsteinn og Björn Víkingur Skúlason, fyrrum kennari, gengu upp í þriðja flokk voru þeir einir í flokknum og þurftu að skipta yfir í Njarðvík því í þá daga mátti ekki spila nema einn flokk upp fyrir sig og það var enginn í öðrum flokki. Þeir voru nógu góðir til að spila með meistaraflokki Keflavíkur sem þá spilaði í næstefstu deild en það var bannað og því ekkert annað fyrir þá félaga að gera en að fara yfir í gin græna ljónsins í Ljónagryfjunni. Þriðji flokkur Njarðvíkur, sem var sterkur fyrir, styrktist og þeir urðu Íslandsmeistarar. Ekki leið á löngu þar til Steini var farinn að spila með meistaraflokki Njarðvíkur.

„Ég hafði valist í einhver unglingalandslið í körfubolta og árið 1978 hlotnaðist mér sá heiður að vera valinn í A-landsliðið bæði í fótbolta og körfubolta. Ég lék sex landsleiki í körfubolta þetta ár og spilaði líka þrjá landsleiki í fótbolta. Ég held að ég sé með þeim síðustu sem afreka þetta, ef ekki sá síðasti, að leika A-landsleik í tveimur greinum á sama árinu. Þarna var ég orðinn aðalmarkmaður í landsliðinu og nafni minn Ólafs, sem ég hafði verið varamarkmaður hjá í Keflavík, var orðinn minn varamarkmaður í landsliðinu. Kannski fyndið að nokkrum árum seinna kom sama staða upp, þá var ég orðinn varamaður hjá Bjarna Sig í landsliðinu, sem hafði verið á bekknum hjá Keflavík þegar ég tók mér stöðu á milli stanganna.

Landslið í körfuknattleik, Þorsteinn er í treyju númer sex á myndinni.
Með íslenska landsliðinu í knattspyrnu.

Ég var á fullu í báðum greinum, við Njarðvíkingar lentum í öðru sæti á Íslandsmótinu ‘76 og ‘77 og ég var á góðu róli í körfunni haustið ‘78. Ég spilaði stöðu framherja, var nokkuð mikill skorari, var að skora tæp tuttugu stig að meðaltali þegar ég fékk óvænt tilboð um atvinnumennsku í fótbolta í Belgíu. Þarna var ég búinn með fyrsta alvöruárið mitt með landsliðinu og fékk tilboð frá liði sem heitir La Louviére, ég var í prófum í FS og þetta kom óvænt upp á. Kannski athyglisverð staða sem upp kom á þessum tíma, nafni minn var að koma til baka frá Svíþjóð og þarna var Bjarni Sig farinn að banka á dyrnar líka og það leit út fyrir að Keflavík yrði með þrjá markmenn tímabilið 1979. Bjarni endaði hins vegar á að ganga til liðs við Skagamenn sem vantaði markmann um vorið ´79 og sjálfur hélt ég á vit ævintýranna í Belgíu, var kominn út fyrir jólin ´78 og upplifði mín fyrstu jól fjarri Íslandi,“ segir Þorsteinn.

Umboðsmaðurinn Albert Guðmundsson

Á þessum tíma var ekki mjög algengt að íslenskir knattspyrnumenn færu í atvinnumennsku og því var þetta mikil upphefð fyrir Þorstein. Skagamaðurinn Karl Þórðarson gekk sömuleiðis til liðs við liðið en áður en kom að því að semja um kaup og kjör kom enginn annar en Albert Guðmundsson að samningaviðræðunum við Belgana.

„Það voru aðrir tímar þegar ég fór út í atvinnumennsku, það voru engir leikmenn að fá borgað á Íslandi á þeim tíma og þess vegna átti liðið kannski enga heimtingu á einhverri greiðslu. Keflavík samdi þannig að liðið mátti senda þrjá leikmenn út til að æfa með liðinu í þrjár vikur. Ég man að Einar Ásbjörn Ólafsson, Rúnar Georgsson og Guðjón Þórhalls komu fyrra árið, ég bjó þá í íbúð og þeir gátu verið hjá mér, það var gaman að fá gömlu félagana út. Áður en ég skrifaði undir var ég samt á báðum áttum, við pabbi ræddum þetta og fannst launin sem mér stóðu til boða ekki vera þess virði að vera fara út fyrir. Pabbi þekkti Albert Guðmundsson sem þá var ráðherra í ríkisstjórn Íslands og fékk hann til að aðstoða okkur í samningaviðræðunum. Við mættum með Belgana inn á Alþingi, Albert fór með þá inn á flokksskrifstofu Sjálfstæðisflokksins og eftir smá stund kom Albert til baka og sagðist halda að við ættum að geta tekið því sem Belgarnir voru þá tilbúnir að bjóða. Belgarnir vissu auðvitað hver Albert var eftir hans frábæra knattspyrnuferil. Hann talaði reiprennandi frönsku og var þarna orðinn ráðherra í ríkisstjórn Íslands, þetta var klókt útspil hjá pabba svo ég skrifaði sáttur undir tveggja ára samning og atvinnumennskan hófst.“

Þorsteinn í atvinnumennsku.

Þorsteinn rétt náði að klára prófin í FS áður en hann hélt út rétt fyrir jólin 1978. Hann byrjaði strax að æfa en belgíska deildin var mjög sterk á þessum tíma, með fullt af frábærum landsliðsmönnum frá Póllandi, Svíþjóð og Hollandi svo dæmi séu tekin. Þorsteini var í raun kastað beint út í djúpu laugina og hann þurfti að vera fljótur að ná sundtökunum.

„Ég fann strax að það var mikill getumunur á íslensku og belgísku deildinni en mér tókst fljótt að aðlagast og gekk strax nokkuð vel. Ég hafði kynnst konunni minni, Kristjönu Birnu Héðinsdóttur, tæpu ári áður en ég fór út, við byrjuðum að búa og hér erum við enn. Hún var búin að læra smá frönsku í háskólanum og í Frakklandi og gat hjálpað mér en það var engin enska töluð í liðinu, bara franska. Ég þurfti að læra nokkur fótboltaorð á frönsku, eins og sending, dekka, hægri, vinstri o.s.frv. Líklega er auðveldara að aðlagast sem markmaður en útileikmaður þegar maður fer að spila á hærra getustigi, alla vega átti það við mig og þessi tvö ár gengu vel. Við féllum reyndar seinna árið en Belgarnir vildu halda mér og buðu mér sama samning áfram en það var eitthvað íslenskt sem togaði í mig og því lauk atvinnumennskunni árið 1980. Þegar ég hugsa til baka þá hefði ég nú líklega getað átt lengri atvinnumannaferil en mér fannst ég eiga skilið að fá betri samning á þessum tíma og ákvað að fara heim og spila með Keflavík. Kannski hélt ég að ég myndi fá betra tækifæri á atvinnumennsku síðar en henni lauk þarna. Ég kom heim um mitt sumar, nafni minn hafði farið aftur út eftir ´79 tímabilið og Jón Örvar Arason var í markinu þar til ég gat byrjað. Eftir tímabilið fann ég hvað mig langaði að reima körfuboltaskóna á mig á ný og ég tók upp þráðinn með Njarðvíkingum þar sem frá var horfið,“ segir Þorsteinn.

Magnús Gíslason teiknaði þessa skopmynd árið 1986 þegar Sigi Held, þáverandi landsliðsþjálfari Íslands, lýsti því yfir að Þorsteinn væri orðinn of gamall til að spila með landsliðinu. Þorsteinn er gamli maðurinn lengst til vinstri, þá Sigi Held og lengst til hægri er Ellert B. Schram, þáverandi formaður KSÍ.


Íslandsmeistari í körfu 1981

Þorsteinn hafði verið í stóru hlutverki hjá Njarðvíkingum áður en hann hélt í atvinnumennskuna en þegar hann sneri til baka var kominn frábær bandarískur leikmaður í Njarðvíkurliðið, Danny Shouse, og aðrir leikmenn máttu hirða þá mola sem duttu af borði Bandaríkjamannsins. Liðið var samt firnasterkt og fagnaði sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli.

„Okkar hlutverk var að setja hindranir fyrir varnarmann Shouse svo hann gæti skotið. Þau stig sem við skoruðum komu þegar við náðum sóknarfrákasti. Ég hafði spilað með öðrum Könum en Shouse var á allt öðru getustigi en maður hafði áður séð, hann var svakalega góður og við tryggðum okkur Íslandsmeistaratitilinn. Ég man að við komumst líka í undanúrslit í bikarnum en töpuðum fyrir Val og ástæðan var einföld, þeir voru með leikmann sem hét Brad Miley sem slökkti hreinlega í Danny Shouse. Þessi Brad hafði verið í byrjunarliðinu með Larry Bird í Indiana State háskólanum, í úrslitaleiknum fræga milli Indiana og Michigan State 1979 var Brad Miley settur á Magic Johnson. Hann var svakalega góður varnarmaður og frákastari. Bird sagði einhvern tíma að hann hefði viljað hafa Brad með sér í atvinnumennskunni en þá hefði hann þurft að kaupa handa honum nýtt skot.

Eftir þetta tímabil gekk ég til liðs við mitt heimafélag Keflavík og spilaði með þeim út ´83–´84 tímabilið þegar körfuknattleiksferlinum lauk. Við byrjuðum á að vinna fyrstu deildina ´82, vorum þá með frábæran Kana sem hét Tim Higgins og hann hélt áfram með okkur árið eftir í úrvalsdeildinni. Okkur gekk mjög vel og vorum efstir um áramótin en Higgins skilaði sér ekki til baka eftir jólafrí. Það tók meiri tíma þá að finna nýjan Kana en á endanum fengum við fyrrnefnan Brad Miley en það var of seint, við töpuðum nokkrum leikjum á meðan við vorum Kanalausir og misstum Valsmenn fram úr okkur. Þá var engin úrslitakeppni, ég er viss um að við hefðum orðið Íslandsmeistarar ef Higgins hefði skilað sér til baka en það var gaman að kynnast Brad, við höfum verið góðir vinir síðan, t.d. kom hann í heimsókn til mín síðasta sumar. Eftir þetta tímabil voru svo Kanarnir bannaðir en þá þjálfaði Brad okkur en við féllum og eftir það tímabil, vorið 1984, lagði ég körfuboltaskónum. Þá var ég á kafi í landsliðinu í fótbolta og fannst þetta réttur tímapunktur að einbeita mér bara að fótboltanum. Ég átti síðan eftir að koma aðeins að körfuknattleiksþjálfun, tók við liðinu seinni hlutann á ´85 tímabilinu og við fórum upp og svo var ég Jóni Kr. Gíslasyni til aðstoðar árið 1989 þegar hann tók við liðinu af Lee Nobler. Keflavík varð Íslandsmeistari svo ég get státað mig af því að vera Íslandsmeistari í körfuknattleik með Keflavík og Njarðvík.“

Keflavíkurliðið sem vann fyrstu deildina 1982.

Til vinstri er þjálfarinn Þorsteinn og hægra megin er hann í leik með Njarðvíkingum.


Markmannshanskarnir til Grindavíkur

Eftir að Þorsteinn sneri til baka úr atvinnumennskunni vorið 1980 tók hann sér stöðu í marki Keflvíkinga og gegndi henni með frábærum árangri allt fram til ársins 1989. Hann átti flottan tíu ára landsliðsferil og átti líklega sín bestu ár sem markmaður árin áður en Keflavík féll árið 1989. Þá átti knattspyrnuferillinn að fara á ís, jafnvel að enda, hann var búinn að eignast tvíbura og sá þetta sem fína tímasetningu til að setja kommu eða punkt aftan við íþróttaferilinn.

„Vorið 1990 hafði Ólafur Jóhannesson, þjálfari FH, samband en þá hafði markmaður liðsins, Halldór Halldórsson, meiðst og Óla vantaði markmann. Ég sagðist leysa Halldór af þar til hann yrði orðinn klár. Við byrjuðum á að vinna Litla bikarinn um vorið, ég hafði nánast verið áskrifandi af þeim bikar með Keflvíkingum. Ég spilaði svo hálft Íslandsmótið en þá sneri Halldór til baka og þó svo að Óli hafi boðið mér að halda áfram vildi ég standa við mín orð gagnvart Halldóri og hætti. Ætli ég hafi ekki hugsað með mér á þessum tímapunkti að þarna færu hanskarnir og skórnir upp í hillu en um haustið hafði Grindavík samband. Þeir höfðu loksins komist upp í 2. deildina sumarið áður, rétt náðu að halda sér í henni og Bjarni Jóhannsson, sem var að taka við liðinu, vildi fá mig í markið. Kannski athyglisvert en þarna samdi ég í fyrsta skipti um laun fyrir að spila, ég spilaði alltaf frítt fyrir Keflavík. Grindavík bauð mér samning sem ég þáði og eftir fyrra tímabilið sagði ég þeim að nú vissu þeir hvað ég gæti og þeir buðu mér áframhaldandi samning. Við vorum mjög góðir ´91 tímabilið og vorum lengi í baráttunni um að komast upp, vorum eina liðið sem vann ÍA, við unnum meira að segja báða leikina gegn þeim. Ég átti tvö góð tímabil með liðinu, var valinn leikmaður ársins ´92 ef ég man rétt og um tíma var ég vítaskytta liðsins. Hjalli og aðrir útileikmenn áttu í einhverju basli á vítapunktinum og ég sagði að tíminn væri kominn á mig, stillti boltanum upp og þrumaði eins fast og ég gat á markið. Ég klikkaði aldrei á víti, bara svo því sé haldið til haga! Svo báðu Jónas og félagar mig um að taka við þjálfun liðsins samhliða því að verja markið. Ég féllst á það en okkur gekk ekki nógu vel þetta tímabil og þarna hélt ég að keppnisíþróttaferlinum væri lokið en aldeilis ekki. Árið 2003, ég þá orðinn 46 ára, kom kallið aftur frá Grindavík fyrir lokaleikinn í Íslandsmótinu. Grindavík varð að ná jafntefli til að halda sæti sínu og það tókst. Ég samdi þannig að þeir þyrftu ekkert að borga mér ef við myndum falla. Árið eftir kom enn eitt kallið, ég u.þ.b. tíu kílóum þyngri, ekki í neinu formi en samdi eins, spilaði í 17. umferðinni og við tryggðum áframhaldandi veru í efstu deild með 3-4 sigri gegn Keflavík og ég gaf lokaleikinn frá mér og gaf ungum Grindvíkingi tækifærið. Ekki lauk ferlinum heldur þarna, ég lét plata mig fyrir nokkrum árum til að spila bikarleik með Ármanni. Haukur Ingi Guðnason hafði samband við mig, hann var að hóa nokkrum gömlum kempum saman í lið og við vonuðumst til að fá viðráðanlegan andstæðing í bikarnum en lentum á móti Fram, sem þá var í næstefstu deild. Við náðum að halda þeim í skefjum fram í hálfleik en þá var bensínið búið á tanknum hjá okkur öllum og Fram valtaði yfir okkur í seinni hálfleik. Þarna var ég rúmlega sextugur, mér þætti fróðlegt að vita hvort það séu margir eldri en ég sem hafa spilað meistaraflokksleik í keppni á vegum KSÍ. Ég geri nú ráð fyrir að skórnir séu endanlega komnir upp í hillu núna, kannski fyndið að þeir færu loksins þangað og ég skráður í Ármann, spurning hvort ég skipti ekki yfir í Keflavík,“ segir Þorsteinn.

Þorsteinn og Kristjana með barnabörnunum.

Nám í Ameríku, starfsferillinn, golf og eftirlaunaárin

Þorsteinn vann hin ýmsu störf samhliða íþróttaiðkuninni, hann var lögreglumaður í fimm ár, var verslunarstjóri Hagkaups í Keflavík í fimm ár og hann rak kjörbúðina Hólmgarð ásamt Ragnari Ragnarssyni frá Grindavík í nokkur ár en þegar Þorsteinn sagði skilið við Grindavík árið 1993 settist hann á háskólabekk í Bandaríkjunum. Hann hafði spilað með og þjálfað KR-inginn og nafna sinn Þorstein Guðjónsson hjá Grindavík, sá var búinn að vera í háskólaboltanum með liði Auburn University of Montgomery, Alabama, og liðið vantaði þjálfara. Þorsteinn og Kristjana drifu tvíburana því með sér til Bandaríkjanna og hófu háskólanám og Þorsteinn þjálfaði liðið. Hann bætti á sig markmannsþjálfun og allt í allt urðu árin í Bandaríkjunum tæp fjögur og þegar komið var heim réði Þorsteinn sig í vinnu upp á velli, sá um tómstundastofnun varnarliðsins. Þegar varnarliðið yfirgaf svo Keflavík árið 2006 réði Þorsteinn sig í vinnu hjá Olís, var orðinn forstöðumaður innkaupa og vöruhúsa og var einmitt að ljúka leik hjá fyrirtækinu daginn sem viðtalið var tekið. Hann kvaddi samstarfsfólkið þann dag en hefur ekki áhyggjur af því að leiðast í framtíðinni.

„Nei, ég hef nú ekki áhyggjur af því, ég hef stundað líkamsrækt síðan ég hætti að keppa, ég spila körfubolta tvisvar sinnum í viku, við hjónin skelltum okkur í golfið árið 2008, við eigum sumarbústað fyrir austan fjall og stefnan er síðan sett á fleiri ferðalög. Tvíburarnir okkar, þau Bjarni og Ingibjörg, hafa fært okkur þrjú barnabörn, Bjarni er einmitt að flytja heim frá Svíþjóð þar sem hann hefur unnið sem læknir. Ingibjörg er taugasálfræðingur, þau hafa bæði plummað sig vel í lífinu. Það verður gaman að fá Bjarna heim, ég hlakka til samverustunda með fjölskyldunni í framtíðinni. Ég mun pottþétt halda áfram að rækta líkamann, er keppnismaður og vil bæta mig í golfinu en yfir höfuð eru framtíðaráformin einfaldlega að njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða,“ sagði Þorsteinn að lokum.

Þorsteinn er nýhættur að vinna og segist hlakka til samverustunda með fjölskyldunni í framtíðinni.