Leit Reynis að sigrinum heldur áfram
Mörk frá Emil Daða Símonarsyni og Pétri Þór Jaidee dugðu skammt gegn velspilandi liði K.V. í hörkuleik í 2. deildinni á góðum N1-vellinum. Reynismenn léku manni færri síðasta hálftímann eftir að Emil fékk sitt annað gula spjald og gestirnir nýttu liðsmuninn til að tryggja sér 2-5 sigur. Frá þessu er greint á heimasíðu Reynis.
Það vakti athygli að Sandgerðingurinn Rúnar Gissurarson lék í marki Reynis, en hann stóð í marki Víðis í sumar og síðast í úrslitakeppni 3. deildar fyrir nokkrum dögum. Áæstæðan fyrir óvæntum félagsskiptum Rúnars voru meiðsli markvarðarins Arons E. Árnasona. Þar sem enginn annar markvörður er í leikmannahópi Reynis fékkst sérstakt leyfir frá KSÍ fyrir skiptum Rúnars til uppeldisfélags síns.
Heimamenn byrjuðu leikinn af krafti og virtust verða staðráðnir í binda enda á tveggja mánaða eyðimerkurgöngu án sigurs. Þessi kraftur skilaði marki strax á 5. mínútu þegar Reynismenn sundurspiluðu vörn gestanna og endaði knötturinn hjá Emil Daða Símonarsyni sem afgreiddi hann netið hjá Reynismanninum fyrrverandi Atla Jónassyni. Annar fyrrverandi Reynismaður jafnaði síðan í 1-1 tíu mínútum síðar þegar Tómas Agnarsson náði að pota knettinum í netið eftir aukaspyrnu. Eftir markið tóku gestirnir öll völd á vellinum. Lykillinn að þessari yfirtöku KV var besti maður vallarins Jökull Elísabetarson sem var sem einráður herforingi á miðjunni. Yfirburðirnir skiluðu sér í marki á 22. mínútu þegar Gunnar Kristjánsson afgreiddi fyrirgjöf af hægri kanti í netið. Litlu mátti muna að munurinn ykist enn nokkrum mínútum síðar þegar Rúnar í marki Reynis varði glæsilega gott skot gestanna.
Hægt og rólega náðu heimamenn þó að komast inn í leikinn á ný og þeir töldu Óla Njál Ingólfsson dómara svíkja sig um vítaspyrnu þegar Grétar Ólafur Hjartarson féll í vítateig KV þegar um korter var til leikhlés. Mínútu síðar voru Reynismenn þó enn argari Óla dómara þegar hann stöðvaði sókn Reynis þar sem einn leikmanna KV lá á vellinum að því virtist meiddur en var hinn hressasti þegar huga átti að honum. Óli Njáll hefur eflaust átt betri daga með flautuna, virkaði frekar óöruggur og á tíðum dæma meira eftir heyrn en sjón. Rétt fyrir leikhlé munaði litlu að heimamenn jöfnuðu metinn þegar Atli varði gott skot frá Þorsteini Þorsteinssyni eftir horn frá Guðmundi Gísla Gunnarssyni.
Það var kraftur í Reynisliðinu í upphafi síðari hálfleiks og á 51. mínútu prjónaði Pétur Þór Jaidee sig glæsilega í gegnum vörn KV, lék á Atla í markinu og jafnaði í 2-2. Eftir þetta var leikurinn í járnum eða þar til að það fækkaði um einn í liði heimamanna. Guðmundur P. Sigurðsson braut þá greinilega á Emil Daða án þess að Óli Njáll dæmdi. Emil brást hinn versti við og fékk sitt annað gult spjald í leiknum fyrir mótmæli og var sendur snemma í sturtu. Vesturbæingarnir nýttu sér svo sannarlega liðsmuninn og skoruðu þrjú mörk á síðasta hálftímanum. Brynjar Orri Bjarnason breytti stöðunni í 2-3 með skallamarki á 66. mínútu. Stuttu síðar björguðu Reynismenn á marklínu á ævintýalegan hátt og tíu mínútum fyrir leikslok small skot frá Jökli Elísabetarsyni í slánni á marki Reynis. Á 85. mínútu bætti Tómas Agnarsson við sínu öðru marki með skalla eftir hornspyrnu. Stuttu fyrir leikslok voru Reynismenn nálægt því að minnka muninn þegar Atli Jónasson varði vel aukaspyrnu frá Grétari Ólafi Hjartarsyni. Brynjar Orri Bjarnason skoraði síðan síðasta mark KV á lokamínútunni og sanngjarn 2-5 sigur gestanna staðreynd.
Með sigrinum er lið KV enn þátttakandi í baráttunni um sæti í 1. deild en lið Reynis hefur hins vegar aðeins náð tveimur stigum í hús í síðustu tíu leikjum. Næsti leikur Reynis er gegn KFR á Hvolsvelli næsta laugardag og þar gefst enn á ný tækifæri til að snúa spilinu við.