Leikur Tottenham vináttuleik við Keflavík?
Hópur Suðurnesjamanna, sem er að stunda golf-íþróttina þessa dagana á Bretlandsleyjum, varð fyrir tilviljun í hringiðu undirbúnings á leik Tottenham Hotspurs og Arsenal, sem fram fór á laugardaginn. Tottenham-menn voru við æfingar á Five Lakes-svæðinu sem er þekkt golf- og íþróttasvæði. Tottenham-liðið var við æfingar á svæðinu til að undirbúa sig fyrir leikinn mikla sem endaði með 2-2 jafntefli og því að Arsenal tryggði sér Englandsmeistaratitilinn.
Leikmenn og stjórar Tottenham áttu langt og gott samtal við Suðurnesjamennina en golfararnir og leikmenn og stjórar Tottenham voru á sama hóteli. Þannig komu til tals leikir Keflavíkur við Tottenham árið 1972, en einn leikmaður Keflavíkur þá, Jón Ólafur Jónsson, var í golfhópnum sem hitti knattspyrnumennina nú fyrir leikinn. Nokkrir í hópi golfaranna eru harðir stuðningsmenn Tottenham og því fékk golfferðin sannkallaðan bónus við það að hitta knattspyrnugoðin. Þannig gáfu þeir David Pleat knattspyrnustjóri og Chris Hugthton þjálfari sér góðan tíma til að ræða málin við Suðurnesjamennina þar sem meðal annars var stungið upp á því að Tottenham og Keflavík muni leika vináttuleik við gott tækifæri. Ekkert var þó ákveiðið í þeim efnum, enda berst Tottenham nú fyrir sæti sínu í ensku Úrvalsdeildinni.
Myndir af vef Tottenham.