Leikmaður Víðis sekur um mismunun
Leikmaður 3. deildar liðs Víðis í Garði var á dögunum dæmdur í keppnisbann eftir að hafa orðið uppvís að mismunun í garð annars leikmanns.
Leikmaðurinn Gylfi Örn Öfjörð, var dæmdur fyrir mismunun í garð leikmanns Ísbjarnarins, í leik í C-deild Lengjubikarsins í knattspyrnu en Fréttablaðið greinir frá.
„Sá síðarnefndi tæklaði Gylfa hressilega og uppskar gult spjald en Gylfi svaraði fyrir sig með orðum sem ekki eiga að heyrast á knattspyrnuvelli frekar en annars staðar,“ segir í Fréttablaðinu en ummælin munu hafa tengst þjóðerni mannsins.
Í reglugerð KSÍ segir:
„Hver sá sem misbýður öðrum einstaklingi eða hópi með fyrirlitningu, mismunun eða niðurlægingu í orði eða verki varðandi kynhneigð, kynferði, trúarbrögð, skoðanir, þjóðernisuppruna, kynþátt, litarhátt, og stöðu að öðru leyti skal sæta leikbanni í að minnsta kosti 5 leiki. Jafnframt skal viðkomandi sæta banni frá viðkomandi leikvelli og sekt að lágmarki að upphæð kr. 100.000.“
Gylfi var dæmdur í fimm leikja bann og þurfa Víðismenn að greiða 100 þúsund krónur í sekt vegna málsins.