Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Leikir vikunnar í körfunni
Fimmtudagur 2. desember 2004 kl. 10:57

Leikir vikunnar í körfunni

Tindastóll-Njarðvík

Njarðvíkingar mæta í Krókódílasíkið svokallaða í kvöld þar sem þeir leika gegn Tindastóli í Intersport-deildinni. Njarðvíkingar eru á toppi deildarinnar með eitt tap á meðan Tindastóll er í einu af neðstu sætunum í spennandi keppni í neðri hlutanum. Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur, býst við hörkuleik. „Þetta verður erfiður leikur. Það er klárt mál. En við ætlum okkur sigur og að halda toppsætinu fram að jólum.“

KFÍ-Grindavík

Grindvíkingar virðast komnir á beinu brautina í Intersport-deildinni á ný. Í kvöld mæta þeir KFÍ á Ísafirði og er Páll Axel Vilbergsson, fyrirliði þeirra, viss um að leikurinn verði ekki auðveldur þrátt fyrir slaka frammistöðu Ísfirðinga framan af vetri. „Við höfum alltaf þurft að hafa fyrir sigrunum á Ísafirði og þessi leikur verður engin undantekning. Við höfum verið að spila betur undanfarið, en getum samt ekki leyft okkur að vera værukærir.“

Keflavík-Skallagrímur

Keflvíkingar mæta Borgnesingum, öðru spútnikliði vetrarins, í kvöld. Nýliðum Skallagríms hefur gengið flest í haginn hingað til, en nú verður leikið í Sláturhúsinu. Þar hafa Keflvíkingar ekki tapað deildarleik í háa herrans tíð og þurfa lærisveinar Vals Ingimundarsonar að hafa sig alla við og treysta á lukkuna. „Skallagrímur er með flott lið sem hefur komið á óvart í vetur, þannig að við mætum á fullu í þennan leik,“ segir Sigurður Ingimundarson, þjálfari  Keflvíkinga. „Við höfum ekki verið að leika nógu vel í deildinni og stefnum á að bæta úr því.“

Keflavík-Grindavík

Grannaliðin Keflavík og Grindavík eigast við í 1.deild kvenna á heimavelli hinna fyrrnefndu á miðvikudaginn. Keflavík hefur borið höfuð og herðar yfir önnur lið í vetur en Grindavíkurstúlkur hafa sýnt góða takta að undanförnu og verða ekki auðveld bráð. Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur, segir góðan anda ríkja í sínum herbúðum eftir sigurinn í hópbílabikarnum um síðustu helgi. „Stemmningin hjá okkur er fín. Það er stutt í Jólafrí og við ætlum okkur að vinna alla leiki fram að jólum til að hafa þægilegt forskot þegar að því kemur.“ Erla Þorsteinsdóttir hjá Grindavík segir ófarirnar gegn Keflvíkingum í Hópbílabikarnum á dögunum ekki hafa áhrif á þennan leik. „Við erum búnar að gleyma honum og stefnum á að vinna þennan leik. Við höfum verið á  réttri leið að undanförnu og stígandinn góður í hópnum og stefnum á að gera enn betur.“

ÍS-Njarðvík

Njarðvíkingar mæta Stúdínum í 1. deild kvenna í körfuknattleik á mánudag.  ÍS hefur spilað vel í vetur en Agnar Mar Gunnarsson, þjálfari Njarðvíkinga, segir að sigur sé möguleiki. „Þær eru að spila á litlum hópi þannig að ef við mætum tilbúin til leiks og nýi leikmaðurinn kemur vel út  eigum við að geta unnið þær.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024