Leikir vikunnar í körfunni
Síðustu umferðir Intersport-deildarinnar og 1. deildar kvenna í körfuknattleik fara fram í vikunni. Karlarnir leika í kvöld og konurnar á mánudaginn.
Intersport-deildin
GRINDAVÍK-BREIÐABLIK
Í kvöld mætast Grindavík og Breiðablik í leik sem hefur ekki mikið vægi fyrir liðin. Þar sem Blikar eru fallnir og Grindvíkingar eru gulltryggðir í öðru sætinu verður leikurinn bara upp á stoltið fyrir Breiðablik, en Grindvíkingar munu eflaust reyna að fínpússa lið sitt fyrir úrslitakeppnina sem er framundan.
Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Grindvíkinga, segir stöðuna í deildinni ekki breyta því að hans menn mæti með sigur á dagskránni. „Leikurinn breytir engu sem slíkur, en við mætum tilbúnir til leiks bæði til að stimpla okkur inn fyrir úrslitakeppnina og til að skoða okkar leik betur.“
HAUKAR-KEFLAVÍK
Þessi leikur gæti skipt sköpum þrátt fyrir að Keflvíkingar hafi þegar tryggt sér þriðja sætið í deildinni. Eins og staðan er í dag munu liðin mætast í fyrstu umferð úrslitakeppninnar, en Haukar gætu fært sig upp um sæti ef þeir vinna þennan leik. Þá gætu Keflvíkingar lent á móti Tindastóli og er það sýnu verri kostur en að mæta Hafnfirðingum því að fyrir utan tímann sem fer í ferðalög eru Stólarnir mun skeinuhættari og fóru illa með Keflavíkinga í síðustu rimmu liðanna.
Guðjón Skúlason, annar þjálfara Keflvíkinga, segir ekkert launungarmál að þeim hugnist betur að fá Haukana. „Við þurfum kannski að laga vörnina hjá okkur frá því í síðustu leikjum, en það var mjög jákvætt að íslensku strákarnir voru að skora mikið fyrir okkur, og það er athyglisvert í ljósi umræðunnar um útlendingamálin síðustu daga.“
TINDASTÓLL-NJARÐVÍK
Njarðvíkingar eiga harma að hefna fyrir leikinn á móti Tindastóli þar sem þeir töpuðu illa á heimavelli sínum í fyrri leik liðanna í desember. Þeir hafa fengið nýjan Kana til reynslu og verður fróðlegt að sjá hvort hann komi til með að styrkja liðið. Úrslit leiksins munu ekki breyta miklu fyrir Njarðvíkinga þar sem þeir eru búnir að tryggja sig í fjórða sætinu og munu liðin mætast í fyrstu umferð úrslitakeppninnar nema Haukar vinni Keflvíkinga.
Friðrik Ragnarsson á von á hörkuleik þar sem ekkert verður gefið eftir. „Við verðum að vinna og ætlum okkur að gera það. Við reynum að keyra hraðann upp og pressa. Það hefur vantað svolítið upp á kjarkinn hjá okkur að undanförnu, en nú er bara að láta vaða á hlutina. Það er betra að klikka á einhverju heldur en að reyna ekkert.“
1. deild kvenna
KEFLAVÍK-NJARÐVÍK
Leikur þessi verður því miður marklaus með öllu þar sem staða liðanna er ráðin og Keflvíkingar verða krýndar deildarmeistarar við þetta tækifæri á meðan Njarðvíkingar eru í fimmta sætinu. Þó er næsta víst að ekkert verður gefið eftir í leiknum frekar en fyrri daginn þegar þessi lið mætast og er óhætt að lofa skemmtilegum leik þrátt fyrir að Keflavíkurstúlkur hljóti að teljast mun sigurstranglegri fyrir fram.
Hjörtur Harðarson, segir mikinn hug í sínum stúlkum fyrir úrslitakeppnina og þær ætli sér að sjálfsögðu sigur í þessum leik. „Þetta verður eins konar æfing fyrir úrslitakeppnina og við munum reyna að ná upp stemmningu fyrir leikinn okkur hefur gengið mjög vel að undanförnu og við ætlum að halda okkar striki.“
Auður Jónsdóttir, fyrirliði Njarðvíkinga, segir að þær ætli bara reyna að hafa gaman af leiknum. „En við mætum auðvitað til að vinna, og vonum að áhorfendur hafi gaman af leiknum.“
KR-GRINDAVÍK
Ekki eru öll mál útkljáð enn í deildinni því KR gæti átt möguleika á að hafa sætaskipti við ÍS í öðru sætinu og nælt sér í heimavallaréttinn fyrir viðureignir liðanna í undanúrslitunum. Grindavíkurstúlkur eru hins vegar staðráðnar í að viðhalda sínum góða árangri í síðustu leikjum og koma á fljúgandi siglingu inn í úrslitin.
Pétur Guðmundsson, þjálfari Grindvíkinga, segir að sínar stelpur komi einbeittar inn þennan leik. „Leikurinn er í sjálfu sér ekki þýðingarmikill en við viljum vinna þennan leik og senda ákveðin skilaboð fyrir úrslitin. Við förum ekki að slaka á núna.“