Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Leikið í Ljónagryfjunni og Toyotahöllinni í kvöld
Fimmtudagur 6. mars 2008 kl. 14:17

Leikið í Ljónagryfjunni og Toyotahöllinni í kvöld

Fjórir leikir fara fram í Iceland Express deild karla í körfuknattleik í kvöld og hefjast þeir allir kl. 19:15. Í Ljónagryfjunni mætast Njarðvík og Skallagrímur sem ásamt Snæfellingum berjast hart um 4. sætið í deildinni. Þá mætast Keflavík og Tindastóll í Toyotahöllinni í Keflavík. ÍR tekur svo á móti Stjörnunni í Seljaskóla og Íslandsmeistarar KR taka á móti botnliði Hamars.

 

Keflvíkingar sem eru í harðri baráttu við KR og Grindavík um deildarmeistaratitilinn töpuðu nokkuð óvænt gegn botnliði Hamars í síðustu umferð og vilja væntanlega sýna í kvöld hvað í sér býr. Njarðvíkingar lögðu einmitt Stólana í síðustu umferð á Sauðárkróki og Skallagrímur tapaði í Borgarnesi gegn Þór Akureyri.

 

Lokaspretturinn sem er framundan verður vafalítið æsispennandi þar sem hart er barist um hvert sæti í deildinni. Allt bendir til þess að Hamar og Fjölnir verði að sætta sig við fall í 1. deild þessa leiktíðina en liðin eiga enn fræðilegan möguleika á því að bjarga sér frá falli þó útlitið sé svart.

 

Fyrir leiki kvöldsins hefur Keflavík 30 stig á toppi deildarinnar rétt eins og KR en Keflavík hefur betur í innbyrðisviðureignum gegn Íslandsmeisturunum. Grindvíkingar eru þar skammt undan með 28 stig en Njarðvíkingar hafa 22 stig í 4. sæti deildarinnar eins og Snæfell í 5. sætinu en með sigri í kvöld geta Skallagrímsmenn að nýju jafnað Njarðvíkinga að stigum.

 

Fastlega er gert ráð fyrir því að miðherjinn Egill Jónasson verði með Njarðvíkingum í kvöld en hann lék í 1 mínútu gegn Tindastól í síðustu umferð og er allur að braggast eftir aðgerð á hné sem hann undirgekkst fyrir skömmu.

 

Staðan í deildinni

 

VF-Mynd/ [email protected] - Egill treður fyrir Njarðvíkinga í Ljónagryfjunni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024