Leggur mikið á sig til að spila með Þór
Körfuknattleikskappinn Guðmundur Jónsson keyrir frá Njarðvík, þar sem hann býr, yfir í Þorlákshöfn á æfingar nánast á hverjum degi. Guðmundur greindi frá þessu í spjalli við Fréttablaðið í dag. „Ég keyri nánast á hverjum einasta degi. Það hafa nokkrir spurt mig að því hvort ég sé geðveikur en það munar mikið um Suðurstrandarveginn,“ sagði Þórsarinn Guðmundur Jónsson sem lætur sig ekki muna um að keyra 150 kílómetra nær daglega á æfingar og í leiki. Ferðin aðra leið er 75 kílómetrar.
„Suðurstrandarvegurinn er fínn en ég er einn og hálfan tíma ef ég þarf að fara í gegnum Reykjavík. Ef ég kemst Suðurstrandarveginn dugar mér að leggja af stað klukkutíma fyrir æfingu og ég er kominn tímanlega. Sá akstur tekur um 50 mínútur.“
Faðir Guðmundar fór yfir það á dögunum hversu mikið sonurinn væri búinn að keyra í vetur og tölurnar eru nokkuð sláandi.
„Þetta er eitthvað í kringum 40 þúsund kílómetrar. Það er dágóður slatti og ansi margir klukkutímar í bílnum. Ég gef mér alveg rúma fjóra tíma á dag sem snúast um æfinguna,“ sagði Guðmundur en er hann ekkert orðinn þreyttur á þessu?
„Þegar ég ákvað að spila með Þorlákshöfn ákvað ég að sleppa allri neikvæðri hugsun um aksturinn. Ef ég væri alltaf að hugsa um það væri ég löngu búinn að gefast upp á þessu. Ég ákvað að taka þessu á jákvæðan hátt og nýta tímann í bílnum til þess að hugsa um lífið og tilveruna.“
Leikmaðurinn knái þorir ekki að skjóta á hvað hann sé búinn að fara með í bensín í vetur en segir að Þór komi til móts við hann í þeim efnum enda bensíndropinn orðinn ansi dýr.
Guðmundur er aðeins með eins árs samning við Þór og hefur ekki tekið ákvörðun um hvort hann heldur áfram að keyra Suðurstrandarveginn næsta vetur.
Nánar á vísir.is