Leggur allt í sölurnar í atvinnumennskunni
-Örn Ævar Hjartarson, kylfingur, í sportspjalli
Örn Ævar Hjartarson atvinnukylfingur úr GS er að taka sín fyrstu skref sem atvinnumaður. Hann hefur verið sigursæll á golfvellinum í gegnum tíðina. Hann hefur orðið Íslandsmeistari í höggleik, Íslandsmeistari í holukeppni og einnig hefur hann orðið níu sinnum klúbbmeistari GS. Hann stundaði nám við Háskólann í Louisiana í Lafayette og stóð sig vel en hann var valinn í úrvalslið SunBelt deildarinnar frá upphafi sem valið var í tilefni af 50 ára afmæli deildarinnar. Ekki má gleyma vallarmeti hans á Nýja vellinum á St. Andrews þegar hann spilaði þar á 60 höggum.
Styrktarmót fyrir Örn Ævar verður á Hólmsvelli í Leiru á sunnudag og má skrá sig til leiks með því að smella hér.
Jón Björn Ólafsson íþróttafréttamaður hjá Víkurfréttum settist niður með Erni Ævari og spurði hann nokkra spurninga.
Hvenær byrjaðir þú í golfi?
Þetta byrjaði allt saman þegar mamma og pabbi komu frá Bandaríkjunum með nýtt golfsett handa mér þegar ég var sjö ára gamall. Ég fór að flækjast með pabba út á völl og þegar hann var að spila þá var ég á Jóelnum að leika mér. Mér gekk alltaf vel að hitta kúluna og þetta var eitthvað sem var svo gaman. Svo skemmdi það ekki fyrir að ég tók þátt í mínu fyrsta móti, Kristínarmótinu, og fékk verðlaun. Það var reyndar fyrir að vera yngsti keppandinn en það var aukaatriði. Síðan hef ég ekki stoppað.
Hvenær varð golf meira en áhugamál? Var eitthvað einstakt atvik sem varð til þess?
Þetta er erfið spurning. Ég hef ætlað mér stóra hluti í golfinu alveg frá því að ég var smá pjakkur og fór með pabba heim til Steina Sigtryggs, sem var með gervihnattadisk, að horfa á PGA mótaröðina. Þá varð það eitthvað sem mig langaði alltaf að gera. En ætli það hafi ekki gert útslagið þegar ég sá hvað ég gat fengið út á golfið þegar ég fór í nám til Bandaríkjanna. Þá var það golfið sem borgaði fyrir námið mitt með námsstyrk. Það var virkilega kveikjan á því að það væri hægt að gera eitthvað meir með golfið en bara leika sér í því.
Hvað er það sem heillar þig mest við íþróttina?
Það sem heillar mig mest við golfið er án efa fjölbreytileikinn við íþróttina. Það er enginn dagur eins á vellinum þó að maður sé að spila sama völlinn aftur og aftur þá er maður aldrei að slá sama höggið og maður sló í gær. Einnig er það félagsskapurinn við íþróttina sem heillar mig. Það er ekkert skemmtilegra en að spila 18 holur með góðum vinum.
Svo kynnist maður svo mörgum í gegnum íþróttina. Þegar maður slær af fyrsta teig með einhverjum í holli sem maður hefur aldrei hitt eða talað við fyrr og eftir hringinn þá erum við orðnir mestu kunningjar. Þetta er ómetanlegt.
Ég hef verið mjög heppinn og út á golfið hef ég ferðast um allan heim til að keppa í mótum. Þetta er eitthvað sem ég hefði örugglega ekki gert hefði ég ekki verið í golfi.
Nú hefur líkamlegt form alltaf verið meira í umræðunni hjá kylfingum. Ert þú að vinna sérstaklega í því?
Að ná langt í þessari íþrótt krefst án efa mikils þols og styrks, bæði líkamlegan og andlegan. Þess vegna er það algjör forsenda til að ná langt í íþróttinni er að vera í topp formi. Ég hef áttað mig á þessu og er að vinna hörðum höndum að því að koma mér í topp form. Ég fer í Lífstíl líkamsræktarstöðina á hverjum degi og tek vel á því. Þetta er orðinn það stór hluti af leiknum að það væri fásinna að sleppa þessum hluta út. Það væri eins og að fara út á völl með þrjár kylfur. Það bara gengi ekki upp.
Nú ertu nýkominn úr úrtökumóti fyrir evrópsku mótaröðina. Hvernig gekk það?
Því miður þá spilaði ég mjög illa fyrsta hringinn. Það var versti hringurinn minn í sumar. Ég var búinn að gera mér sæmilegar vonir um að standa mig vel og gekk mjög vel æfingadagana fyrir mótið. Ég var að slá boltann vel og pútta ágætlega þannig að ég var frekar vongóður á því að spila vel. En raunin var nú önnur. Þegar ég kom á fyrsta teig og nafnið mitt kynnt af ræsi var allt eins og það átti að vera. Veðrið var gott, ég var búinn að hita vel upp og tilbúinn að takast á við verkefni dagsins. Svo sló ég fyrsta höggið sem ég ætlaði mér að slá létt en ákveðið, og boltinn flaug hátt og fagurt en langt til hægri og út í þykkt gras. Þetta högg hafði ég ekki slegið einu sinni á æfingahringnum og kannski eitt svona í sveitakeppninni sem var síðasta alvörumótið sem ég spilaði í fyrir mótið. Ég hugsaði hvað hafði gerst þegar ég gekk að boltanum og af fyrri reynslu þá slæ ég svona högg þegar ég renni mjöðmunum of harkalega fram þegar ég slæ. Ég reyndi að laga þetta á næstu holu og viti menn ég sló höggið langt til vinstri. Eftir þessi högg var ég alltaf óöruggur með það sem ég var að gera og ekki batnaði þetta þegar ég náði ekki að setja niður neitt pútt lengra en tveir metrar allan hringinn. Niðurstaðan 80 högg og draumurinn um að komast í aðra umferð fór hverfandi. Annan og þriðja hringinn spilaði ég mjög vel en það vantaði smá heppni á flötunum. Sem dæmi þá var ég á öðrum hringnum 12 sinnum innan við fimm metra frá holunni fyrir fugli en fékk aðeins þrjá. Það eru ekki ásættanlegar niðurstöður. En af þessu má læra margt. Eitt er að til að komast áfram þarf að spila jafnt og gott golf. Þá spyr maður sig næstu spurninga. Hvernig spilar maður jafnt og gott golf? Það eru einmitt hlutir sem ég er að vinna í þessa dagana og verð að vinna í næsta árið. Ég ætla að reyna að safna mér inn keppnisreynslu og vinna markvisst að því að verða góður í golfi.
Hvað er næst á döfinni hjá þér?
Næst á döfinni hjá mér er að ég er að fara í viku æfingar til Spánar núna 1. október og þaðan flýg ég beint til Svíþjóðar þar sem ég mun taka þátt í úrtökumóti fyrir sænsku mótaröðina. Eftir það er vikupása og svo er úrtökumót fyrir Scanplan mótaröðina sem er dönsk mótaröð. Í nóvember verð ég ásamt Heiðari Davíð Bragasyni atvinnumanni úti á Spáni við æfingar og erum við jafnvel að velta því fyrir okkur að taka þátt í úrtökumóti fyrir Asíu mótaröðina sem fer fram í byrjun desember. En það fer mikið eftir því hvernig fjárhagurinn er.
Hvernig er staðan hjá þér næstu ár?
Staðan er frekar óljós hvað keppnisgolfið varðar því að það fara fram úrtökumót á hverju hausti og keppnisréttur á mótum fer alveg eftir gengi í þessum mótum. Eitt er víst að ég verð allavega ekki með keppnisrétt á evrópsku mótaröðinni. En fyrir utan það þá er bara að æfa og verða betri til að þetta gangi upp.
Hvað þarf til að vera atvinnumaður?
Gary Wolsterholme einn þekktasti áhugamaður Breta í gegnum tíðina lýsti þessu einna best. Annaðhvort þarftu að vera ótrúlega góður í golfi eða eiga mjög góða að sem sjá um þig fjárhagslega. Það er ekkert leyndarmál að svona dæmi kostar mikið. Það þarf að geta æft sig allan ársins hring við góðar aðstæður og það þarf að borga reikninga og sjá fyrir fjölskyldu sinni. Sparisjóðurinn í Keflavík hefur komið inn í þetta verkefni með mér sem aðalstyrktaraðili og það sem þeir setja í verkefnið er góð byrjun þó að það dekki ekki næstum því allt.
Hver eru langtímamarkmið þín?
Ég hef sett mér þau langtíma markmið að vera kominn inn á evrópsku mótaröðina árið 2011. Þetta gefur mér þrjú ár að undirbúa mig sem kylfing til að geta staðið í þessum harða heimi atvinnukylfinga. Það þarf mikinn sjálfsaga til að þetta geti orðið að veruleika. Ég þarf að koma mér í topp líkamlegt form og vinna markvisst í sveiflunni minni þannig að ég get spilað vel dag eftir dag og viku eftir viku. Þetta verða þrjú ár sem ég legg allt í sölurnar til að ná sem bestum árangri því ég ætla ekki að hafa neina eftirsjá þegar ég verð eldri.