Lauflétt hjá Njarðvíkingum
Munurinn 35 stig gegn FSU
Njarðvíkingar áttu ekki í teljandi vandræðum með lið FSU sem mætti í heimsókn í Ljónagryfjuna þar sem liðin áttust við í Domino's deild karla í kvöld. Skemmst er frá því að segja að Selfyssingar sáu aldrei til sólar og unnu Njarðvíkingar öruggan sigur 100:65. Munurinn var þegar orðinn 15 stig eftir fyrsta leikhluta og Njarðvíkingar við bílstjórasætið frá upphafi. Hægt og bítandu juku þeir grænklæddu muninn og úr varð auðveldur sigur.
Jeremy Atkinson daðraði við fremur óvanalega þrennu, en hann skoraði 27 stig, stal 10 boltum og tók 7 fráköst. Annars fengu allir Njarðvíkingar að spreyta sig í kvöld og komust tíu leikmenn á blað. Hinn 18 ára Snjólfur Marel Stefánsson átti skemmtilega innkomu, en hann tók 7 sóknarfráköst og 10 stykki alls í leiknum. Auk þess var Adam Eiður Ásgeirsson flottur með 14 stig á 17 mínútum, þar af fjórar þriggja stiga körfur.
Njarðvíkingar eru í sjötta sæti deildarinnar eins og stendur en þeir geta komið sér í það fjórða með sigri í leik sem þeir eiga til góða.