Lauflétt hjá Keflvíkingum
Sigruðu Hauka örugglega
Keflvíkingar unnu afar sannfærandi sigur á Haukum, þegar liðin áttust við í Domino's deild kvenna í körfubolta í kvöld í TM-höllinni í Keflavík. Lokatölur 90-63 fyrir heimakonur sem voru hárbeittar allt frá upphafi leiks.
Keflvíkingar spiluðu frábæra vörn og uppskáru fyrir vikið margar auðveldar körfur í fyrsta leikhluta. Eftir að munurinn fór hátt í 20 stig var sem Keflvíkingar slökuðu aðeins á. Haukar fóru að setja skotin sín niður en munurinn var þó 14 stig í hálfleik. Jafnræði var með liðunum í þriðja leikhluta en í þeim fjórða skildu leiðir endanlega. Þá var eins og Haukar gæfust upp og Keflvíkingar gengu á lagið. Munurinn á endanum 27 stig í sannfærandi sigri Keflvíkinga.
Keflvíkingar hittu mun betur í leiknum, 54% gegn 28% hjá Haukum. Auk þess stálu Keflvíkingar boltanum 15 sinnum og neyddu Hauka í 23 tapaða bolta, þannig að vörnin var sterk. Carmen Tyson-Thomas átti enn einn stórleikinn hjá Keflavík, en hún skoraði 31 stig í leiknum. Annars dreifðu heimakonur stigaskorinu vel og komust nánast allir að blað.
Keflavík-Haukar 90-63
Keflavík: Carmen Tyson-Thomas 31/8 fráköst/5 stoðsendingar, Sara Rún Hinriksdóttir 13/7 fráköst, Ingunn Embla Kristínardóttir 11, Bryndís Guðmundsdóttir 8/4 fráköst, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 7/4 fráköst, Thelma Dís Ágústsdóttir 4, Lovísa Falsdóttir 4, Sandra Lind Þrastardóttir 4, Marín Laufey Davíðsdóttir 3/11 fráköst, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 3, Hallveig Jónsdóttir 2, Elfa Falsdottir 0.
Lovísa Falsdóttir setur boltann í körfuna og skorar tvö af fjórum stigum sínum.