Lárus kveður Njarðvík og heldur heim
Bakvörðurinn Lárus Jónsson hefur sagt skilið við Ljónagryfjuna í Njarðvík og mun leika með Hamri það sem eftir lifir leiktíðarinnar í Iceland Express deild karla. Lárus kom til Njarðvíkinga í sumar en hann sagði í samtali við Karfan.is að tímabilið hafi verið viðburðaríkt til þessa. Lárus er öllum hnútum kunnugur í Hveragerði og eins og svo margir körfuknattleiksmenn borinn og barnfæddur á Suðurlandinu. Þessu greinir karfan.is frá.
,,Ég býst við því að vera löglegur á fimmtudag en mér rann bara blóðið til skyldunnar og þá var líka orðið ansi fjölmennt í minni stöðu í Njarðvík,” sagði Lárus sem nú parar sig saman við Ellert Arnarson sem skilað hefur leikstjórnandastöðunni hjá Hamri í vetur ásamt Andre Dabney sem látinn var fara frá félaginu fyrir skemmstu.
Njarðvíkingar bættu Nenad Tomasevic við sig á dögunum sem og Jonathan Moore en Lárus sagði að þó mikið hefði gengið á þetta tímabilið hefði það ekki verið meira en oft áður.
,,Fyrst maður skipti um klúbb kom ekkert annað til greina en Hamar. Við vorum orðnir nokkrir um mínúturnar í Njarðvík og samkeppnin mikil svo ég er kannski að gera þeim greiða,” sagði Lárus en hvernig líst honum á að para sig nú saman við Ellert í bakvarðastöðunni í Hveragerði?
,,Mér líst vel á að spila með Ella og hann er búinn að standa sig vel í vetur og vonandi get ég leyst hann af hólmi og við jafnvel spilað eitthvað saman,” sagði Lárus sem lék 16 deildarleiki með Njarðvíkingum og gerði í þeim 3,1 stig og gaf 2,6 stoðsendingar að meðaltali í leik.
www.karfan.is