Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Lárus hættur hjá Njarðvík
Miðvikudagur 28. nóvember 2012 kl. 13:14

Lárus hættur hjá Njarðvík

Ákveðið metnaðarleysi hjá leikmönnum að hans mati

Lárus Ingi Magnússon hefur rift samningi sínum við körfuknattleiksdeild Njarðvíkur sem aðstoðarþjálfari kvennaliðs félagsins. Lárus greindi frá þessu í samtali við vefsíðuna Karfan.is. Lárus hóf störf hjá UMFN á síðasta tímabili sem aðstoðarþjálfari Sverris Þórs Sverrissonar en liðið vann bæði deild og bikar það ár. Nú hefur hann séð um stjórn liðsins ásamt Lele Hardy sem jafnframt leikur með liðinu.

„Eftir umhugsun þá tók ég þá ákvörðun á mánudag að leitast eftir því að samningi mínum við deildina yrði rift. Ástæðan er margþætt en sú helsta er að það eru samskiptaörðuleikar í hópnum milli mín og einstakra leikmanna og ákveðið metnaðarleysi hjá þeim sem ég vil ekki hanga á. Ég vil liðinu einfaldlega betur en svo,“ sagði Lárus Ingi í samtali við Karfan.is

„Stærsti hluti hópsins eru frábærar stelpur sem erfitt er að yfirgefa en það þarf ekki mörg skemmd epli til að skemma fyrir heildinni. Þetta eru 3 mannsekur sem gera það að verkum að ég stíg til hliðar. Ég vona svo innilega að þessar fáu sem eiga í hlut og þær vita hverjar þær eru, fari að líta í eigin barm og hugsa sín mál. Svo eru oft á tíðum aðstandendur leikmanna ekki öllu betri því miður.“

„Við vissum að þessi vetur yrði erfiður og við missum 5 leikmenn frá síðasta tímabili sem voru að spila stórt hlutverk í liðinu. En sumar hverjar sem urðu eftir héldu að mínúturnar kæmu þá sjálfkrafa uppí hendurnar á þeim. En hjá mér virkar það þannig að þú þarft að vinna þér inn þínar mínútur og sýna metnað og dugnað. Lele (Hardy) bað mig um að endurskoða ákvörðun mína ásamt nokkrum öðrum leikmönnum en því verður ekki haggað hjá mér á meðan svona er í pottinn búið. Að vissu leyti hefði þurft að grípa í taumana fyrr en það er líka erfitt þegar hópurinn er þunnskipaður. En ég tek þessa ákvörðun með hagsmuni liðsins í forgrunni. Ég mun áfram fylgjast með þeim og vona að þetta verði til þess að liðinu gangi betur það sem eftir lifir tímabils.“ sagði Lárus Ingi að lokum við Karfan.is

Njarðvíkingar mæta toppliði Keflvíkinga í kvöld en Keflvíkingar eru ósigraðar í deildinni í vetur. Njarðvíkingar hafa hins vegar aðeins unnið þrjá af tíu leikjum sínum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024