Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Lánleysi Keflvíkinga algjört og botninum náð
Sigurbergur Elísson segir Keflvíkinga komna með bakið upp við vegg.
Föstudagur 26. júní 2015 kl. 07:00

Lánleysi Keflvíkinga algjört og botninum náð

Verðum að ná í stig gegn liðunum í kringum okkur, segir Sigurbergur Elísson leikmaður liðsins

Fallbaráttan blasir við Keflvíkingum eftir að liðið þurfti að þola 4-2 tap gegn Skagamönnum á mánudagskvöldið. Tapið gerir það verkum að liðið situr einmana á botni deildarinnar með 4 stig og hefur fengið á sig 21 mark í fyrstu 9 leikjum mótsins. Varnarleikur Keflvíkinga hefur verið vægast sagt arfaslakur í sumar og þarf að stöðva blæðinguna og búa um sárið ætli liðið sér ekki að leika í 1. deild að ári. Keflvíkingar fengu urmul færa í leiknum og misnotuð vítaspyrna í upphafi síðari hálfleiks sagði meira en mörg orð um það lánleysi sem virðist þjala liðið.

,,Þetta er virkilega svekkjandi og hreinlega slæmt tap. Þeir komast yfir strax á 2. mínútu en við héldum skipulagi, spiluðum okkar leik og þá vorum við algjörlega með yfirhöndina og komumst yfir. Eftir það slokknar svo á okkur eins og svo oft í sumar og við fáum það í andlitið. Við byrjum svo síðari hálfleikinn vel og fáum vítaspyrnu og fleiri góð færi sem að við því miður nýttum ekki og ef við nýtum ekki þessi færi þá eigum við lítið skilið út úr leiknum.” -sagði Sigurbergur Elísson, leikmaður liðsins, í samtali við blaðamann.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

En er ekki lykilatriði fyrir Keflavíkurliðið að ná í stig gegn liðum eins og ÍA, ÍBV, Leikni og Víking á þessum tímapunkti til að missa þessi lið ekki úr seilingarfjarlægð?

,,Jú, algjörlega. Við verðum að gera okkur grein fyrir stöðunni sem við erum búnir að koma okkur í og ef við ætlum að redda okkur þá verðum við að fá fleiri stig og þá sérstaklega gegn liðunum sem eru í kringum okkur.”

Nú er Hörður Sveinsson frá vegna meiðsla og maður veltir því fyrir sér hvort að hraði þinn og skottækni sé ekki betur nýttur í fremstu víglínu frekar en á kantinum eins og staðan er í dag. Væri það eitthvað sem að þú værir til í að skoða ef að það yrði dagsskipulagið fyrir næsta leik?

,,Já, að sjálfsögðu. Ég held að allir væru til í að prófa að spila í ,,senternum” En við erum með fleiri flotta leikmenn sem geta leyst þá stöðu á meðan Höddi er að jafna sig, en vonandi fæ ég traustið til þess að sýna mig í senternum á einhverjum tímapunkti og næ að hjálpa liðinu.”

Þið leikið gegn Stjörnunni á mánudag á heimavelli. Hvernig stöðva menn blæðinguna og ná í þrjá punkta gegn særðu Stjörnuliði?

,,Þetta verður hörkuleikur. Við erum, eins og taflan segir, með bakið upp við vegg og Stjörnumenn hafa ekki byrjað mótið eins og þeir hefðu óskað sér. Við förum að sjálfsögðu inn í þennan leik til þess að vinna. Nú förum við bara að undirbúa okkur fyrir þann leik strax í dag og mætum klárir í slaginn.”

[email protected]