Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Lánleysi Grindvíkinga algert
Þriðjudagur 12. júlí 2005 kl. 22:58

Lánleysi Grindvíkinga algert

Valsmenn hirtu í kvöld öll stigin sem stóðu til boða á Grindavíkurvelli með því að leggja heimamenn að velli 0-1 í Landsbankadeild karla í knattspyrnu. Mark leiksins gerði Matthías Guðmundsson á 75. mínútu og Valsmenn því enn í öðru sæti deildarinnar með 24 stig eftir 10 leiki, sex stigum á eftir FH-ingum í toppsætinu. Grindvíkingar sóttu hart allan leikinn en lánleysi þeirra var algert við mark Valsmanna. Leikurinn í kvöld var annar leikur liðsins í röð á heimavelli þar sem þeim misferst að skora.

Hvað sem úrslitum leiksins líður þá voru Grindvíkingar sterkari bróðurpartinn af leiknum og strax á fjórðu mínútu átti Magnús Þorsteinsson fast skot að marki sem Kjartan Sturluson varði yfir.

Einungis tveimur mínútum síðar prjónaði Óskar Örn Hauksson sig í gegnum varnarlínu Valsmanna og skaut að marki en framhjá fór boltinn.

Fyrsta færi gestanna af Hlíðarenda kom á 11. mínútu þegar Baldur Aðalsteinsson skaut í kollega sinn Grétar Sigurðsson og varð því stefnubreyting á boltanum sem fór rétt framhjá marki Grindavíkur. Strax í næstu sókn sendi Óskar Hauksson boltann á Paul McShane sem skaut yfir í ákjósanlegu færi.

Mikið fjör var í leiknum en Grindvíkingar þó líklegri framan af til þess að gera fyrsta markið.

Baldur Aðalsteinsson í liði Vals og Mathias Jack, varnarmaður Grindavíkur, fengu báðir að líta gula spjaldið eftir að þeim lenti saman. Var Mathias ósáttur við framgöngu Baldurs og ýtti til hans og uppi varð smá hamagangur en dómari leiksins, Magnús Þórisson, sýndi þeim réttilega gult spjald fyrir vikið.

Á 29. mínútu sendi Paul McShane boltann á Mounir Ahandour sem skallaði að marki Vals en þar var fyrir á ný Kjartan Sturluson sem varði boltann yfir. Kjartan átti góðan dag í marki Vals og bjargaði þeim oft úr kröppum dansi.

Staðan því 0-0 í hálfleik og mörkin létu á sér standa þó færin gerðu það ekki.

Í seinni hálfleik komu Grindvíkingar ákveðnir til leiks og á 47. mínútu átti Magnús Þorsteinsson skot í varnarmann Vals en Eysteinn Hauksson, sem kom inn á í hálfleik sem varamaður, tók frákastið og skaut langt yfir markið. Miðinu á fallbyssu Eysteins skeikaði enn þegar hann skaut á ný yfir mark Valsmanna sex mínútum eftir fyrra skot sitt.

Seinni hálfleikurinn var fjörugur og marktækifærin virtust koma á færibandi en ekki vildi boltinn inn fyrr en á 75. mínútu leiksins. Þá vann Matthías Guðmundsson boltann af Óla Stefáni Flóventssyni af miklu harðfylgi og skoraði örugglega, 0-1. Slæm mistök í vörn Grindvíkinga en áfram héldu heimamenn að sækja af krafti en uppskáru ekki fyrir erfiði sitt.

Grindvíkingar eru í því í sjöunda sæti deildarinnar með níu stig og baráttan orðin geysihörð í neðri hluta deildarinnar.

Staðan í deildinni

VF-myndir/ Jón Björn, [email protected]

 






 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024