Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Langþráður sigur Keflvíkinga - „þeir „gömlu“ bestir. UMFG saknaði Ramseys
Fimmtudagur 17. september 2009 kl. 10:09

Langþráður sigur Keflvíkinga - „þeir „gömlu“ bestir. UMFG saknaði Ramseys

Það hefði verið til að bæta gráu ofan á svart hjá Keflvíkingum eftir hörmulegt gengi silfurliðsins í sumar, hefði bjargvættur liðsins til margra ára, Þórarinn B. Kristjánsson, nú leikmaður Grindavíkur, jafnað í uppbótartíma í leik liðanna í gærkvöldi. Sem betur fer fyrir heimamenn þá sluppu þeir með skrekkinn því Tóti sem var nýkominn inn á skaut rétt framhjá markinu og Keflavík marði sigur á Grindavík 1:0 á Sparisjóðsvellinum í Keflavík í Pepsi deildinni í knattspyrnu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fram að leiknum í gær hafði Keflavík ekki unnið sigur í deildinni síðan 23. júlí en þá vann það Fylki. Síðan bættist við sigur í bikarnum á móti FH en frammistaða Keflvíkinga á þessari leiktíð á móti besta liði landsins síðustu ára stendur upp úr í miklu vonbrigða sumri, tveir sigrar og eitt jafntefli. Í leiknum í gær á móti Grindavík sem var leikur um stoltið og stöðuna í deildinni var ekkert til að hrópa húrra fyrir. Keflvík vann sigur í frekar leiðinlegum leik þar sem færi voru ekki á hverju strái.

Gömlu mennirnir í Keflavíkurliðinu, þeir Haukur Ingi Guðnason og Jóhann B. Guðmundsson, héldu leiknum lifandi með skemmtilegum töktum, sérstaklega Jóhann. Þeir áttu nokkrar mjög skemmtilegar rispur og marktækifæri. Haukur skallaði t.d. í slá Grindavíkur í fyrri hálfleik og Jói átti margar góðar tilraunir á markið og einnig sendingar á samherja sem sköpuðu hættu. Grindvíkingar áttu líka nokkrar tilraunir til að skora og hálf færi án þess að stuðningsmenn Keflavíkur fengju beint magaverk en voru á heildina litið ekki síðri aðilinn. Þeir voru hættulegir í nokkrum hornum og eitt sinn fór skot Norðmannsins, Tor Erik Moen rétt framhjá stönginni.


Í síðari hálfleik voru Keflvíkingar sterkari aðilinn að undskildu góðu færi Sveinbjörns Jónassonar sem Lasse Jörgensen varði vel á upphafsmínútunum og þeir „gömlu“, en mjög svo spræku Keflvíkingar, Haukur og Jóhann, héldu uppi lífi í sóknartilburðum heimamanna. Eitt þeirra skilaði marki á 61. mínútu en þá gaf Jóhann boltann af miðjunni inn í teig á Hólmar Örn Rúnarsson sem skaut frekar lausu skoti á markið. Óskar Pétursson, markvöður UMFG náði ekki að festa hendur á boltanum og hinn eldfljóti Magnús Sverrir Þorsteinsson kom og hirti boltann og lagði hann í netið. Þetta reyndist eina markið en heimamenn voru aðgangsharðari allan hálfleikinn og náðu að halda hinum skemmtilega framherja þeirra, Gilles Ondo niðri en sókn þeiri gulu saknaði Scotts Ramsey illilega. Eins og fyrr segir munaði þó litlu að nágrannarnir stælu öðru stiginu þegar Þórarinn Kristjánsson, nýkominn inn á, reyndist að þessu sinni „bjargvættur“ sinna gömlu félaga með því að skjóta fram hjá markinu í uppbótartíma.

Keflvíkingar sögnuðu Simuns Samuelssonar sem var meiddur en hann hefur verið besti maður liðsins í sumar. Grindvíkingar söknuðu eins og fyrr segir líka Ramseys sem var í banni sem og Jósef K. Jósefsson Þá kom Zoran Stamenic aftur í lið Grindavíkur eftir meiðsli. . Keflvíkingar voru með nokkuð breytt lið frá bikarundanúrslitunum því auk Simuns voru á bekknum Jón Gunnar Eysteinsson og Guðmundur Steinarsson. Inn á komu Einar Orri Einarsson, Brynjar Örn Guðmundsson og Magnús S. Þorsteinsson.


Grindvíkingar sluppu við fall og hafa verið gloppóttir í sumar því þeir ætluðu sér meiri hluti. Keflvíkingar byrjuðu mótið ágætlega en misstu svo flugið. Þeir fengu liðsstyrk um mitt sumar þegar Haraldur Freyr Guðmundsson kom beint úr atvinnumennsku og Guðmundur Steinarsson sömuleiðis en sá síðarnefndi var leikmaður mótsins í fyrra. Þeir hafa hvorugir náð sér nógu vel á strik í sumar og liðið hefur aðeins unnið tvo leiki síðan þeir komu í hópinn. Sérstaklega hafa stuðningsmenn Keflavíkur orðið fyrir vonbrigðum með frammistöðu Guðmundar sem hefur aðeins skorað eitt mark.
Keflvíkingar eru í 5. sæti deildarinnar og verða í baráttunni um 4. til 6. sætið við Fram og Breiðablik. Grindvíkingar eru í 9.-10. sæti með ÍBV.

Á efri myndinni skýtur Hólmar að markinu en á þessari mynd sést hvernig boltinn rennur fram hjá varnarmanni og markmanni UMFG. Magnús Sverrir bíður eftir boltanum og lagði hann svo í netið.

Það var hart barist á báða bóga eins og sjá má á þessum myndum úr leiknum Hilmars Braga.