Langþráður sigur Grindvíkinga
Grindavík sigraði ÍA 3:2 í miklum baráttuleik í kvöld í Pepsí- deild karla í knattspyrnu í Grindavík. Leikurinn fór rólega af stað og var ekkert mark skorað í fyrri hálfleik.
Aðeins voru liðnar nokkrar mínútur af seinni hálfleik þegar fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós en það var Þórður Þorsteinn Þórðarson sem skoraði fyrir ÍA.
Andri Rúnar Bjarnason jafnaði úr vítaspyrnu á 64. mínútu. ÍA komst aftur yfir með marki frá Garðari Gunnlaugsyni á 68.mínútu. Önnur vítaspyrna var dæmd á ÍA og Andri Rúnar Bjarnason fór aftur á punktinn og skoraði sitt annað mark á 80. mínútu fyrir Grindavík.
Sigurmark Grindavíkur kom á 84. mínútu og var það Juan Manuel Ortiz Jimenez sem skoraði það. Grindvíkingar fögnuðu gríðarlega í lokin enda fyrsti sigurinn í langan tíma og því langþráður. Við sigurinn fara Grindvíkingar í fjórða sætið deildarinnar með 24 stig.