Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Landsmót UMFÍ 50+ í Vogum heppnaðist einstaklega vel
Strandarhlaup Blue að hefjast. VF/JPK
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 14. júní 2024 kl. 06:02

Landsmót UMFÍ 50+ í Vogum heppnaðist einstaklega vel

„Ég er afskaplega stoltur af því að tilheyra þessu samfélagi og íþróttafélaginu okkar, Þrótti,“ segir Marteinn Ægisson, framkvæmdastjóri Þróttar.

Landsmót UMFÍ 50+ var haldið í Vogum í síðustu viku og tókst mjög vel. Fjölmargir gestir heimsóttu Vogana og eins voru margir sem komu að undirbúningi og framkvæmd mótsins, jafnt sjálfboðaliðar sem og starfsmenn Þróttar og Sveitarfélagsins Voga. Þetta var tólfta Landsmótið sem hefur verið haldið en mótið fer fram árlega.

Marteinn var varla kominn á lappir þegar blaðamaður heyrði í honum mánudagsmorguninn 10. júní en mjög mikið var að gera hjá honum dagana fyrir mótið og að sjálfsögðu í mótinu sjálfu, og var hann búinn að ákveða að taka frí þennan dag.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég held ég muni ekki klæða mig í dag, stefni á að slá metið í leti eftir erilsama síðustu daga. Ég er örugglega ekki sá eini sem er eftir mig eftir þessa helgi, allir sjálfboðaliðarnir og annað starfsfólk er örugglega þreytt. Þetta gekk vonum framar og verður seint hægt að full þakka þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum frá Vogum sem lögðu hönd á plóg, eins vil ég minnast á og þakka Jóhanni Ingimar Hannessyni, umsjónamanni fasteigna hjá Sveitafélaginu Voga og öðru starfsfólki sveitarfélagsins, sem unnu baki brotnu alla helgina og vil ég hér með þakka þeim kærlega fyrir ómetanlegt starf.

Í framkvæmdanefndinni voru aðilar frá björgunarsveitinni Skyggni, kvenfélaginu Fjólu, Minjafélaginu auk annarra. Frá frá mínum innstu hjartarótum vil ég segja þetta. Þrátt fyrir að Þróttarar í Vogum hafi átt hugmyndina að því að fá að halda mótið og hafi haldið utan um skipulagið, hefði þetta aldrei verið mögulegt ef við hefðum ekki notið góðvildar og hjálpsemi hinna fjölmörgu sjálfboðaliða frá Vogunum sem raun bar vitni. Það voru fjölmargir sem stóðu vaktir í allt að tíu klukkutíma á dag en það skipti engu máli, samheldnin í þessu sveitarfélagi er einstök og ég er afskaplega stoltur af því að tilheyra þessu samfélagi og íþróttafélaginu okkar, Þrótti.“

Petra Ruth Rúnarsdóttir, formaður Þróttar, og Marteinn Ægisson, framkvæmdastjóri ungmennafélagsins.

Keppt var í hinum ýmsu greinum frá fimmtudegi til sunnudags, hvaða greinar eru eftirminnilegastar?

„Boccia-keppnin dregur alltaf til sín flesta keppendur, eins var mjög góð mæting í Strandarhlaupin tvö en tvær vegalengdir voru í boði. Ringó er mjög skemmtileg grein, svipar til blaks þar sem hringjum er kastað á milli, golfklúbburinn okkar hélt utan um golfmótið og í raun væri of langt mál að telja upp allar greinarnar. Okkur reiknast til að um 400 keppendur hafi mætt til leiks og með þeim fullt af aðstandendum svo það var svo sannarlega mikill erill í Vogunum um helgina. Við vorum með nokkra viðburði í kringum keppnisgreinarnar, heimatónleikarnir þrír slógu t.d. í gegn en tveir þeirra voru á föstudagskvöldinu og einir tónleikar á laugardagskvöldinu. Á sama tíma var haldin matar- og skemmtidagskrá í Tjarnarsalnum okkar og fullt var á báða þessa viðburði. Eins og má sjá á þessari upptalningu þá var varla eitt einasta atriði sem hefði getað farið betur og ef eitthvað ætti að reyna telja til, væri það þáttur veðurguðanna. Við þurftum að fresta hjólreiðunum sem áttu að vera á föstudaginn en þær fóru fram á mánudagskvöld,“ segir Marteinn.

 Á Landsmótinu var m.a. keppt um titilinn pönnukökumeistarinn.

Fastagestir

Næsta Landsmót fer fram að ári í Fjallabyggð, Marteinn á ekki von á öðru en fastagestirnir láti sjá sig þar og telur þetta mót algerlega eiga heima á hverju ári.

„Þetta er tólfta Landsmótið sem er haldið og greinilegt að það er búið að festa sig í sessi hjá mjög mörgum. Fólk lítur á þetta sem fastan punkt í sinni tilveru á sumrin og mætir alltaf. Alveg eins og fleiri þátttakendur voru sjálfsagt frá sunnanverðu landinu í ár, má búast við að Norðlendingar fjölmenni á næsta ári og í mínum huga er ekki spuning um að halda þetta mót árlega. “ sagði Marteinn að lokum.


Neðst á síðunni má sjá myndasafn sem ljósmyndarar Víkurfrétta, Hilmar Bragi Bárðarson og Jóhann Páll Kristbjörnsson, tóku á Landsmótinu.

Landsmót 50+ í Vogum | 6.–9. júní 2024