Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

  • Landsliðsmaður í bæði körfu og fótbolta
    Brynjar spilaði sinn fyrsta landsleik í fótboltanum á dögunum. Nú er spurning hvort hann fara ekki með körfuboltalandsliðinu utan síðar í sumar.
  • Landsliðsmaður í bæði körfu og fótbolta
Sunnudagur 8. maí 2016 kl. 11:48

Landsliðsmaður í bæði körfu og fótbolta

Njarðvíkingurinn Brynjar Atli Bragason er fjölhæfur íþróttamaður

Njarðvíkingurinn Brynjar Atli Bragason er fjölhæfur íþróttamaður. Þessi 16 ára efnilegi strákur hefur haft í nógu að snúast að undanförnu þar sem hann hefur verið við æfingar með unglingalandsliðum bæði í körfubolta og fótbolta auk þess sem hann er að útskrifast úr grunnskóla. Hann er ekki enn búinn að gera upp hug sinn þegar kemur að því að velja á milli íþróttagreina, hann segir að þó verði hann að velja sem fyrst enda stefnir hann hátt.

Brynjar er markvörður í fótboltanum, en hann lék sinn fyrsta landsleik á dögunum með undir 17 ára landsliðinu. Ísland vann þá 3-2 sigur á Svíum þar sem Brynjar stóð á milli stanganna.
„Ég var ekkert nógu góður sem útileikmaður og fannst alltaf gaman að vera í markinu. Ég var varnarmaður eitt sumar þegar ég handarbrotnaði en annars hef ég alltaf verið í markinu,“ segir Brynjar sem hefur æft fótbolta frá unga aldri. Hann telur marga kosti fylgja markmannsstöðunni þó svo að talsverð ábyrgð og pressa fylgi með. „Maður er þarna einn og það fylgir því mikil ábyrgð að vera þarna aftastur og stjórna þaðan. Það er samt mjög góð tilfinning að geta bjargað marki, það taka allir eftir því,“ bætir hann við.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Brynjar var valinn í 16 manna hóp í körfuboltalandsliðinu og hugsanlega getur hann unnið sér sæti í liðinu sem fer á Norðurlanda- og Evrópumót í sumar. Í körfuboltanum leikur Brynjar sem bakvörður.

„Það væri gaman ef ég gæti svarað því,“ segir Brynjar aðspurður um hvora íþróttina hann ætli að velja þegar fram líða stundir. Eins og staðan er núna þá finnst honum ómögulegt að velja á milli. „Ég finn það samt alveg að ég þarf að fara að velja fljótlega ef ég vil ná árangri í annarri hvorri íþróttinni.“ Útskrift er handan við hornið úr Njarðvíkurskóla en Brynjar er afbragðs námsmaður. Hann gerir ráð fyrir því að fara í FS þar sem það myndi henta vel með íþróttunum. Nám erlendis eða atvinnumennska heilla Brynjar. Hvort sem það yrði í körfunni eða fótboltanum.

Ómar Jóhannsson er markmannsþjálfari hjá Njarðvíkingum en hann lék á sínum tíma með öllum yngri landsliðum Íslands og reyndi fyrir sér í atvinnumennsku. „Ómar hefur hjálpað mér mikið og ég treysti honum mjög vel,“ segir Brynjar en Ómar fór sjálfur 17 ára til Svíþjóðar þar sem hann lék með Malmö.

Körfuboltinn hentar markvörðum vel

„Brynjar kom inn í meistaraflokkinn fyrir um ári síðan, þá rétt 15 ára gamall. Hugmyndin var að hann myndi byrja rólega með okkur en sýndi fljótt að hann hefði fullt erindi í meistaraflokksbolta svona ungur, maður þarf í raun að minna sig á það reglulega að hann er einungis í 3. flokk ennþá,“ segir Ómar aðspurður um markvörðinn unga. „Hann er mikill íþróttamaður og býr að því að hafa fengið góðan markmannsskóla hjá Sævari Júlíussyni frá unga aldri. Þá hafa hæfileikar hans í körfubolta að vissu leyti skilað sér í markvörsluna og ýmislegt í leik hans þar sem körfuboltabakgrunnurinn hefur greinilega styrkt hann. 16 ár er enginn aldur fyrir markmann svo það er ennþá langur vegur fyrir Brynjar frá því að vera efnilegur til þess að verða góður en vissulega hefur hann mikla hæfileika að spila úr,“ bætir hann við.