Íþróttir

Landsleikjahlé
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 22. mars 2024 kl. 06:09

Landsleikjahlé

Það á ekki af starfsmönnum Réttarins að ganga í tippleik Víkurfrétta. Margoft hefur verið minnst á slælega framgöngu fyrrum starfsmans Magga á Réttinum en spurning hvort Magnús sjálfur hafi toppað þennan fyrrum starfsmann sinn því honum tókst hið ómögulega um helgina; hann tapaði fyrir manni sem virtist ekki vita út á hvað getraunir ganga. Formaður bæjarráðs Suðurnesjabæjar, Anton Guðmundsson, þurfti nánast aðstoð við að fylla út seðilinn í síðustu viku en það kom ekki að sök, hann vann sigur á hinum reynda tippara Magnúsi Þórissyni en reyndar eftir hnífjafnan leik, 8-8. Anton vann á fleiri leikjum réttum með einu merki, 4-3. Það verður fróðlegt að mæta á Réttinn í vikunni og athuga hvort Magnús muni láta sjá sig frammi í afgreiðslunni eins og hann gerir alla jafna eða haldi sig bara fyrir framan eldavélina á meðan storminn lægir.

Alls voru 30 tipparar í Skandinavíu með þrettán rétta, enginn af þeim landi okkar. Þeir fengu hver rúmar 2,7 milljónir í sinn hlut en fimmtán af 880 með tólf rétta voru Íslendingar og fékk hver rúmar 35 þúsund krónur í sinn vasa.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þar sem enska úrvalsdeildin fer í pásu í næstu viku á meðan landsliðin leika listir sínar fer tippleikur Víkurfrétta í pásu í þessari leikviku.

Tilkynnt verður í næsta blaði hver áskorandi Antons mun verða.