Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Landsbankinn aðalbakhjarl knattspyrnudeildar Keflavíkur
Fimmtudagur 28. apríl 2011 kl. 11:54

Landsbankinn aðalbakhjarl knattspyrnudeildar Keflavíkur

Landsbankinn verður aðalbakhjarl knattspyrnudeildar Keflavíkur næstu ár en samningur þess efnis liggur fyrir. Landsbankinn mun styðja þétt við bakið á meistaraflokkum karla og kvenna og yngri flokkum.

„Sparisjóðurinn í Keflavík hefur verið helsti styrktaraðili knattspyrnunnar í Keflavík um árabil. Samstarf knattspyrnudeildar og sparisjóðsins var mjög gott allan þann tíma og á deildin Sparisjóðnum mikið að þakka. Með samruna við SpKef tekur Landsbankinn við keflinu sem aðalbakjarl knattspyrnudeildar,” segir Þorsteinn Magnússon formaður knattspyrnudeildar Keflavíkur.

„Forsvarsmenn Landsbankans hafa sýnt samstarfinu mikinn áhuga og lýst vilja til að styðja knattspyrnuna í Keflavík áfram. Það er okkur í knattspyrnudeildinni mikið tilhlökkunarefni að starfa með Landsbankanum og væntum við mikils af samstarfinu,” segir Þorsteinn.

„Við erum mjög stolt af því að vera bakhjarlar Keflavíkurliðanna og hlökkum til samstarfsins við knattspyrnudeildina. Það er markmið okkar að styrkja íþróttastarf á Suðurnesjum með ráðum og dáð,“ segir Einar Hannesson, útibússtjóri Landsbankans í Reykjanesbæ.

Landsbankinn hefur ákveðið að afsala sér auglýsingum á búningum hjá Keflavík og bauð félaginu að velja sér í staðinn gott málefni á búningana. Keflavík valdi Þroskahjálp á Suðurnesjum og mun merki félagsins prýðir því búninga félagsins næstu ár. Með þessu sýna bæði knattspyrnudeild Keflavíkur og Landsbankinn stuðning sinn í verki og styðja við það frábæra starf sem unnið er hjá Þroskahjálp á Suðurnesjum.

„Með verkefninu Samfélag í nýjan búning viljum við tengja saman í gegnum bankann íþróttafélög og samtök eða félög sem láta að sér kveða í mannúðarmálum og gefa um leið íþróttafélögum, stuðningsmönnum þeirra eða styrktaraðilum kost á að taka þátt í að styðja við mannúðarmál í félagi við Landsbankann,“ segir Einar.

Myndir: Siggi Jóns



Einar Hannesson, útibússtjóri Landsbankans í Reykjanesbæ og Þorsteinn Magnússon, formaður knattspyrnudeildar Keflavíkur undirrita samninginn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024