Kvennalið KR fékk kennslustund í Ljónagryfjunni
Njarðvíkurstúlkur sigruðu KR 89-52 í Ljónagryfjunni í kvöld. Leikurinn var sannkölluð kennslustund fyrir gestina sem enn eru án sigurs í 1. deild kvenna. Jamie Woudstra átti magnaðan leik fyrir Njarðvík og það virðist vera nokkur stígandi í liðinu með tilkomu Veru Janjic.
KR-stúlkur hófu leikinn betur en Ljónynjurnar voru fljótar að jafna sig á heimavelli og beittu árangursríkri 2-2-1 svæðispressuvörn. Staðan að loknum 1. leikhluta var 25-18 Njarðvík í vil.
Í öðrum leikhluta tóku Njarðvíkurstúlkur töglin og hagldirnar á vellinum og héldu til leikhlés með 16 stiga forystu, 48-32. Þegar tæpar 9 mínútur voru til loka fyrri hálfleiks hélt Helga Jónasdóttir af velli með 3 villur og kom ekki meira við sögu í fyrri hálfleik. Eins og glöggt má sjá virtist það ekki hafa mikil áhrif á heimaliðið sem hélt sinn sjó.
Gestirnir gáfu svo upp öndina í 3. leikhluta þar sem Njarðvík jók muninn í 36 stig með dugnaði í fráköstum og góðri keyrslu upp völlinn. Staðan var orðin 78-42 þegar haldið var til fjórða leikhluta en KR skoraði einungis 20 stig í öllum seinni hálfleik. Miskunn var ekki að finna í liði Njarðvíkur sem kláraði leikinn á 37 stiga sigri.
Jamie Woudstra fór mikinn í liði Njarðvíkur og skoraði 31 stig ásamt því að taka 13 fráköst. Vera Janjic átti einnig prýðisleik og setti niður 22 stig. Í liði gestanna skoraði Gréta Grétarsdóttir 15 stig en Corine Williston gerði 11.
Tölfræði leiksins
VF-myndir/ Jón Björn