Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Kvennakarfan: Keflvíkingar krýndar deildarmeistarar
Mánudagur 8. mars 2004 kl. 21:29

Kvennakarfan: Keflvíkingar krýndar deildarmeistarar

Síðasta umferð 1. deildar kvenna var leikin í kvöld. Keflavík vann Njarðvík á heimavelli sínum og voru að því loknu krýndar deildarmeistarar og fögnuðu vel. Þá töpuðu Grindvíkingar naumlega fyrir KR.


KEFLAVÍK-NJARÐVÍK 95-54
Leikur Njarðvíkur og Keflavíkur hafði litla þýðingu fyrir liðin þar sem lokastaða deildarinnar réðst fyrir nokkru. Njarðvíkingar mættu þó sprækar til leiks þar sem þær gáfu ekkert eftir og gekk vel í sókninni.
Þær leiddu framan af, en í öðrum leikhluta náðu Keflvíkingar frumkvæðinu og létu það ekki af hendi. Staðan í leikhléi var 42-38 heimastúlkum í vil, en í seinni hálfleik settu þær í fluggírinn.
Sókn Njarðvíkur hafði gengið bærilega til að byrja með, en í seinni hálfleik hittu þær einungis úr 5 skotum utan af velli, þar af einu í þriðja leikhluta, og Keflvíkingar gengu á lagið og sigldu örugglega framúr og unnu leikinn stórt og verðskuldað, eins og áður sagði, 95-54.

Hjörtur Harðarson, þjálfari sigurliðsins var ánægður með seinni hluta leiksins hjá sínum stúlkum. „Þetta var ekki mjög gott framan af, en svo kom vörnin inn í seinni hálfleik og kláraði leikinn. Það er einmitt það sem skiptir öllu máli í þessum leik og vinnur titlana.“
Jón Júlíus, þjálfari Njarðvíkur, var, eins og gefur að skilja, ánægðari með fyrri hálfleikinn, en sagði ekkert jafnast á við Keflavíkurliðið þegar það er í ham eins og í kvöld. „Þær eru bara á öðrum standard en hin liðin í deildinni. Við vorum samt að gera ýmsa hluti vel, og ef við spiluðum heilt tímabil eins og fyrri hálfleikinn værum við í öðru sæti deildarinnar. Annars óskum við Keflvíkingum til hamingju með sigurinn, en nú er bara næst á dagskrá hjá okkur að búa sig undir næsta tímabil.“

Stigahæstar:

Keflavík: Erla Þorsteinsdóttir 17/10, Anna María Sveinsdóttir 16/12, María Ben Erlingsdóttir 13.

Njarðvík: Andrea Gaines 19/12, Auður Jónsdóttir 13, Ingibjörg Vilbergsdóttir 10.


Hér má finna tölfræði leiksins


KR-GRINDAVÍK 64-62
Grindvíkingar og KR-ingar voru búin að tryggja sér þátttöku í undanúrslitunum fyrir leikinn í kvöld og höfðu því ekki að neinu að keppa í sjálfu sér.
Það mátti sjá á leiknum þar sem KR hafði sigur eftir frekan bragðdaufan leik.
Grindvíkingar voru feti framar en heimastúlkurnar lungann úr leiknum, en munurinn var þó aldrei mikill. Þá einkenndist sóknarleikur beggja liða af klaufaskap þar sem liðin voru að missa bolta af óþörfu og fóru ófáar sóknirnar í súginn.
Grindvíkingar höfðu þó náð 5 stiga forskoti fyrir síðasta leikhluta, en glutruðu því niður og þurftu að sætta sig við tap.

Pétur Guðmundsson, þjálfari Grindavíkurstúlkna, var ekki ánægður með spilið í kvöld. „Við vorum yfir mestallan tímann, en vorum svo klaufar með boltann undir restina og það kostaði okkur sigurinn. Annars voru þær ekkert að spila betur og það var lítil barátta í gangi í leiknum. Nú þurfum við að gíra okkur upp fyrir Keflvíkinga í úrslitakeppninni, en við sýndum í síðasta leik gegn þeim að við getum staðið í þeim og áttum að geta unnið þann leik.“

Stigahæstar:

Grindavík: Kesha Tardy 21/15, Ólöf Pálsdóttir 13.

KR: Katie Wolfe 28, Hildur Sigurðardóttir 19.


Hér má finna tölfræði leiksins

VF-Myndir/Hilmar Bragi  #1 Deildarmeistararnir  #2 Fyrirliðinn Erla Þorsteinsdóttir með verðlaunagripina

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024