Kvennakarfan: Keflavík vinnur fyrsta leikinn
Keflavíkurstúlkur unnu sigur í fyrsta leik sínum gegn Grindvíkingum í undanúrslitum 1. deildar kvenna. Lokatölur voru 58-52 eftir að Keflvíkingar höfðu leitt allan leikinn.
Keflvíkingar vissu fyrir fram að lykillinn að velgengni gegn Grindvíkingum væri að stöðva Keshu Tardy. Það gerðu þær með góðum árangri því að henni gekk alls ekki vel og var ekki sá prímusmótor sem hún hefur verið í sóknarleik Grindvíkinga eftir áramót.
Munurinn á liðunum var aldrei afgerandi þrátt fyrir að heimastúlkur hafi leitt allan tímann því þær voru ekki nógu harðar í fráköstunum og fengu því bara eitt tækifæri í hverri sókn. Grindvíkingar tóku líka alltaf góðar rispur inn á milli og söxuðu á forskotið.
Munurinn í hálfleik var 8 stig, 32-24, en Grindvíkingar minnkuðu muninn í þriðja leikhluta og fóru þær allt niður í 2 stig, 45-43.
Síðasti leikhluti bauð ekki beint upp á áferðarfallegan bolta, frekar en hafði viðgengist í leiknum fram að því, heldur var baráttan í fyrirrúmi. Allt kom þó fyrir ekki hjá Grindvíkingum sem náðu ekki að ógna Keflvíkingum að miklu marki, en þær geta þó huggað sig við það að þær sýndu svo ekki varð um villst að þær geta vissulega staðið í meistaraefnum Keflvíkinga.
Hjörtur Harðarson hjá Keflavík sagði að margt hefði getað farið betur hjá sínum stúlkum, en sigurinn sé það sem skipti máli. „Þetta telur allt! Við vorum að frákasta illa í kvöld ásamt því að ég hefði viljað að við skoruðum meira, en vörnin var ágæt hjá okkur. Við vissum alveg að þó að við tækjum Kanann úr umferð hafa þær fleiri sterka leikmenn sem gæti losnað um. Nú verðum við að laga það sem betur mætti fara og taka þetta í næsta leik.“
Pétur Guðmundsson lét tapið í kvöld ekki íþyngja sér heldur er hann þvert á móti sigurviss fyrir næsta leik liðanna. „Við tökum þetta á miðvikudaginn! Vörnin var góð hjá okkur, en við mættum vera duglegri við að nýta tækifærin sem við fáum. Við vorum heldur ekki nógu djarfar og sýndum ekki af okkur mikið sjálfstraust, en það verður einhver að taka af skarið fyrir okkur og þetta kemur allt í næsta leik.“
Tölfræði leiksins má finna hér