Kvennakarfan: Grindavík vinnur sigur á Njarðvík í æsispennandi leik
Grindavík bar sigurorð af Njarðvík í leik liðanna í 1. deild kvenna í kvöld. Lokatölur í Ljónagryfjunni voru 48-59 eftir spennandi lokaleikhluta þar sem Grindvíkingar komust loks inn í leikinn eftir að hafa verið undir allan leikinn.
Njarðvíkingar áttu sennilega einn sinn besta leik í vetur framan af þessari viðureign þar sem þær spiluðu glimrandi varnarleik og héldu rækilega aftur af Keshu Tardy sem náði sér ekki á strik fyrr en langt var liðið á leik. Þá áttu þær góða spretti í sóknarleik sínum.
Grindvíkingar komust aldrei á flug í fyrri hálfleik og ef það hefði ekki verið fyrir Petrúnellu og Sólveigu hefði staða þeirra verið mun verri, en Njarðvíkingar leiddu með 42 stigum gegn 39.
Í seinni hálfleik komust gestirnir inn í leikinn af alvöru og jöfnuðu metin í þriðja leikhluta. Tardy fann loks fjölina sína og fór að láta finna fyrir sér ásamt því sem sóknarleikur heimastúlkna fór stöðugt versnandi og þegar komið var fram á síðustu mínútur leiksins datt allur botn úr leik Njarðvíkinga og Grindvíkingar gegnu á lagið og skoruðu síðustu 12 stig leiksins.
Pétur Guðmundsson, þjálfari Grindvíkinga, þakkaði góðum endaspretti fyrir sigurinn, en var ekki ánægður með leik stúlknanna í heild. „Við gerðum þetta eins erfitt og hægt var, en undir lokin komu Petrúnella og Keke sterkar inn og vörnin small. Það má segja að við höfum verið heppnar að vinna, en við spiluðum bara rétt nógu vel til að vinna, en ekki meira en það.“
Jón Júlíus, þjálfari Njarðvíkinga, gat ekki leynt vonbrigðum sínum í leikslok. „Við vorum betri í 37 mínútur í kvöld, en stelpurnar voru orðnar þreyttar undir lokin því ég keyrði á fáum stelpum í kvöld. Þær eiga samt mikið hrós skilið því þær spiluðu mjög vel og börðust mikið og unnu vel allan tímann, þannig að við erum svekkt að hafa ekki náð sigri.“
Stigahæstar:
Nja: Andrea Gaines 16/12, Auður 13, Ingibjörg 12.
Gri: Kesha Tardy 23/16, Sólveig 15, Petrúnella 13.
Tölfræði leiksins má finna hér
VF-mynd: Þorgils Jónsson