Kvennakarfan fer af stað í kvöld
Fyrsta umferð 1. deildar kvenna í körfuknattleik fer fram í kvöld.
Þá mætast meistarar Keflavíkur og nágrannar þeirra úr Njarðvík á heimavelli þeirra síðarnefndu. Þá leika Grindavíkurstúlkur gegn liði KR á heimavelli sínum, Röstinni.
Ekki er á neinn hallað þó Keflavíkurstúlkur teljist sigurstranglegri gegn Njarðvík enda eru þeir með geysisterkan hóp og virðast vera á mikilli siglingu. Njarðvíkingar byggja lið sitt að langmestum hluta upp á ungum og efnilegum stúlkum sem hafa litla reynslu og eiga vafalaust eftir að þurfa að berjast fyrir tilverurétti sínum í 1. deildinni í vetur.
Liðin tefla fram nýjum leikmönnum í kvöld þar sem Reshea Bristol verður í búningi Keflavíkur og Jaime Woudstra, systir Brandons, verður í liði Njarðvíkur.
Grindavíkurstúlkur verða erfiðar heim að sækja í vetur og verða KRingar að hafa sig allar við í kvöld. Hópurinn hjá Grindavík er þéttur þar sem Erlurnar tvær, Þorsteinsdóttir og Reynisdóttir, eru lykilleikmenn ásamt Sólveigu Gunnlaugsdóttur.
Leikirnir hefjast kl. 19.15.