Kvennakarfa: Grindvískur sigur í Keflavík
Grindavíkurstúlkur höfðu sigur í skemmtilegum leik þegar Keflavíkurstúlkur tóku á móti þeim í Toyotahöllinni í gærkvöldi. Lokastaðan 75-78. Leikur liðanna var jafn á fyrstu mínútum leiksins en Keflavíkurstúlkur fóru illa með fjölmörg færi og knötturinn vildi ekki rata niður í körfuna.
Grindavíkurstúlkur voru fimm stigum yfir í hálfleik og höfðu sex stiga forskot fyrir síðasta leikhlutann. Grindavík leiddi allan leikinn. Þær keflvísku hrukku í gang alltof seint, áttu möguleika á sigri, en allt kom fyrir ekki og þær grindvísku hrósuðu þriggja stiga sigri.
Petrúnella Skúladóttir úr Grindavík var með 19 stig og 7 fráköst og sannarlega maður leiksins.