Kvennaboltinn: GRV sigraði Keflavík í kvöld
Það var sannkallaður Suðurnesjaslagur á Sparisjóðsvellinum í Keflavík í kvöld þegar Keflavíkurstúlkur tóku á móti nágrannastúlkum sínum í GRV í Pepsi-deild kvenna í kvöld. Úrslit leiksins urðu 2-1 sigur GRV. Eftir sigurinn á Keflavík er GRV í fimmta sæti deildarinnar.
Andrea Ósk Frímannsdóttir kom heimastúlkum yfir á 19. mínútu leiksins með fallegu marki sem kom eftir góða sókn Keflavíkur. GRV jafnaði síðan leikinn á 34. mínútu með marki Alexöndru Sveinsdóttur. Markvörður Keflavíkur sló háan bolta úr hornspyrnu sem barst Alexöndru sem skoraði úr teignum.
Gestirnir fengu síðan vítaspyrnu þegar langt var liðið á leikinn og úr henni skoraði Sarah McFadden örugglega. Þjálfari Keflvíkinga mótmælti vítaspyrnudómnum kröftulega en vítaspyrnan var dæmd eftir að tveir leikmenn höfðu stokkið upp í skallabolta.
Það varð talsverð blóðtaka í liði Keflavíkur skömmu fyrir leikhlé þegar einn besti leikmaður liðsins, Marina Nesic, var borin af leikvelli í sjúkrabörum eftir að hnéskel hennar hafði farið á eitthvað flakk í vinstra hnénu. Óvíst er hvaða afleiðingar það hefur fyrir hana og frekari þátttöku hennar í knattspyrnu á næstunni.
Svipmyndir úr leiknum eru komnar í myndasafn hér á vf.is
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson