KSÍ verðlaunaði NES
Viðurkenningar fyrir Grasrótarviðburði ársins 2007 voru afhentar í höfuðstöðvum Knattspyrnusambands Íslands fyrir skemmstu. Það voru þeir Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, Þórir Hákonarson, framkvæmdarstjóri KSÍ og Guðlaugur Gunnarsson, starfsmaður mótadeildar KSÍ, sem afhentu viðurkenningarnar. Íþróttafélagið Nes fékk viðurkenningu fyrir knattspyrnu fatlaðra (Best disabled football event). Nes hélt Íslandsleika fatlaðra í knattspyrnu í Reykjaneshöllinni í apríl við frábærar undirtektir.
„Við erum hæst ánægð með þessa viðurkenningu frá KSÍ og er hún hvatning til að halda áfram. Mikill áhugi er á fótbolta hjá okkur og kvarta menn um að ekki sé nóg af æfingum og nóg af mótum en fótboltaæfingar eru 1 sinni í viku hjá Nes. Það er vonandi að þessi viðurkenning efli knattspyrnuiðkun í röðum fatlaðra þannig að fleiri lið taki þátt og þar af leiðandi verða fleiri mót. Við stefnum svo að sjálfsögðu á að halda fóboltamót á vorönn,“ sagði Jenný Magnúsdóttir formaður Nes.
Mynd: Forsvarsmenn KSÍ ásamt kátum félagsmönnum Nes og Jennýju Magnúsdóttur formanni Nes.