KSÍ eykur fjárframlög til barna- og unglingastarfs aðildarfélaga
Á fundi stjórnar KSÍ í gær var ákveðið að bregðast við gjörbreyttum aðstæðum í íslensku efnahagsumhverfi með því að stórauka fjárframlög til barna- og unglingastarfs aðildarfélaga sambandsins. Þetta þýðir að Knattspyrnudeildir Keflavíkur og Grindavíkur, sem eiga lið í estu deild karla, fá hvor um sig 2,2 milljónir króna sem eiga að renna í barna- og unglingastarf. Njarðvík fær 1,5 milljónir króna, Reynir Sandgerði og Víðir Garði eina milljón og Þróttur Vatnsleysuströnd 750 þúsund krónur.
Með stórauknu framlagi til barna – og unglingastarfs vill KSÍ standa vörð um hið mikilvæga uppeldisstarf aðildarfélaganna. Jafnframt samþykkti stjórn sambandsins að leita samþykktar UEFA við því að lengja aðlögunartíma aðildarfélaga er undirgangast leyfiskerfi KSÍ að mannvirkjaákvæðum kerfisins til ársins 2012 í stað ársins 2010
Knattspyrnusamband Íslands tekur undir áskorun menntamálaráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sem hún sendi frá sér í síðustu viku um eflingu íþróttastarfs vegna þeirra aðstæðna sem nú eru uppi í íslensku þjóðfélagi. Aðildarfélög eru hvött til að eiga fund með stjórnendum sinna sveitarfélaga og setja upp aðgerðaráætlun sem hrint verði í framkvæmd strax á næstu dögum eða vikum með það að markmiði að auka enn frekar möguleika barna – og unglinga á skipulögðu starfi knattspyrnuhreyfingarinnar. Markmiðið hlýtur að vera að allir fái tækifæri til að vera með óháð efnahag eða félagslegri stöðu og því er mikilvægt að allir taki höndum saman og tryggi aðgang barna – og unglinga að starfsemi knattspyrnufélaganna.